Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

28.08.2021

Titill færslu

Texti færslu

 

16.10.2014

Vaðlaheiðargöng í bið

Vaðlaheiðargöng í bið.

   Enn einn eitt hneykslið, ósvífnum kjördæmispoturum til ævarandi skammar. En Steingrímur og Kristján Möller munu seint skammast sín. Þeir knúðu Vaðlaheiðargöng fram fyrir eðlilega röðun verkefna í vegakerfinu.  Ekkert nema frekjan og kjördæmapotið. Nú sjá menn hver staðan er:  Engar áætlanir standast hvorki verklegar eða fjárhagslegar. En menn eru alveg sallarólegir. Ný verkáætlun er í skoðun, að henni er nú unnið í mestu rólegheitum, segja menn.  Og fjármögnunin?  Jú það er þörf á að semja upp á nýtt við lánadrottna og svo er heppilegt að gera nýja áætlun um reksturinn þegar göngin hafa verið opin í eitt ár og komið hefur í ljós hver umferðin verður, segir framkvæmdastjóri  Vaðlaheiðarganga.   Hér kveður aldeilis við nýjan tón. Allt í einu er viðurkennd óvissa um sjálfan rekstrargrundvöllinn.  Muna menn kokhreystina og fullyrðingarnar um ágæti þessa verkefnis? Fullyrt var að fjárfestingin mundi skila sér og  göngin bera sig fjárhagslega á veggjöldum.   En, ekki  hafa áhyggjur  kæru kjósendur,  Það er ríkisábirgð á allri vitleysunni!  Skattgreiðendum taka þetta þá bara á sínar herðar eins og önnur gæluverkefni ósvífinna og  óhæfra þingmanna. 

09.10.2014

Viðkvæm staða nýrrar ríkisstjórnar

Ekki  er laust við að pólitíkin sé nokkuð undarleg þessa dagana hér í Svíþjóð þegar  hin veika stjórn Sósíaldemokrata og Umhverfisflokksins          - með  38% fylgi í þinginu - er að fóta sig við stjórn landsins. Og ekki  verður nú sagt að samstaða stjórnarflokkanna sé 100%. Túlkanir þeirra á sumum  ákvæðum stjórnarsáttmálans eru mjög  mismunandi.  Ótrúlegt  misræmi kemu t.d. fram þegar fjallað er um framtíð  kjarnorkuveranna í landinu. Åsa Romson, annar formanna Umhverfisflokksins,  segir fullum fetum að tveir kjarnaofnar verði  teknir  úr notkunn  á kjörtímabilinu.  Löven segir stefnuna vissulega vera þá að hætta rekstri kjarnorkuveranna þegar fram líði stundir.  Það  geti hinsvegar ekki gerst á einni nóttu heldur ráðist af því hve fljótt takist að fá aðra og betri orkugjafa í gagnið. Alltaf þurfi að tryggja atvinnulífi og heimilum örugga orku, sem auðvitað er hið raunsæja mat.

07.10.2014

Eldspúandi drekar í Bókhlöðusíkinu

 

Nýlega var frá því sagt í Morgunblaðinu, að menn hefðu  komist að því að eldspúandi drekar séu ekki til. Þetta kom mér nú ekkert á óvart, ég komst sjálfur að þessum sannindum fyrir mörgum árum, þegar bygging Þjóðarbókhlöðunnar var komin á lokastig. Þá var ég að velta fyrir mér hvernig nýta mætti síkið fyrirhugaða umhverfis húsið á þann hátt að sómi væri að. Mér þótti líka einboðið að vatn þetta  yrði nefnt sérstaklega  og  kallað Bókhlöðusíkið. Ég sá strax að tilkomumikið myndi vera, og sérlega viðeigandi, að hafa  einn eldspúandi dreka við hvert horn Þjóðarbókhlöðunnar. Sá ég fyrir mér að dýrin hefðu aðsetur hvert í sinni ,,grottu", sem arkitektinn færi létt með að hanna. (Annað eins hefur hann nú teiknað blessaður). Við hátíðleg tækifæri, eins og  t.d. þegar einhver afkomandi Sigurðar Nordals ætti leið um brúna, kæmu drekarnir úr fylgsnum sínum og blésu eldi. Þá væri nú gagn að vatninu til að verjast eldsvoða.

                               

                                                                                    

 

                                                                               

 

Í framhaldi af þessum hugleiðingum sendi ég fyrirspurn til Landbúnaðarráðuneytisins til þess að kanna hugsanlegar undirtektir við umsókn um innflutning á  nokkrum eldspúandi drekum. Þar á bæ fundu menn raunar engin paragröf í sínum reglugerðum sem beinlínis áttu við slík dýr. Málið taldist ekki einfalt í meðförum, og ljóst að ekki væri  hægt að taka erindið til umfjöllunar fyrr en ráðuneytinu hefði borist formleg umsókn. Miklu myndi þá skipta, sögðu ráðuneytismenn, að með umsókn fylgdi óbrigðult vottorð um heilbrigði drekanna. Glöggur embættismaður benti reyndar á að það kynni að verða vandkvæðum bundið að hafa  eldspúandi dreka í sóttkví, þar sem hús einangrunarstöðvarinnar í Hrísey væru ekki gerð úr eldtraustum efnum.

 

Skemmst er frá því að segja að leit mín á veraldarvefnum að eldspúandi drekum leiddi í ljós, eins og áður segir, að slík kvikendi fyrirfinnast ekki á allri jarðarkúlunni. Og þau eru ekki einu sinni útdauð - hafa bara aldrei verið til! Allar frásagnir í fornum sögnum og hetjukvæðum - sem menn lúra nú á í  Árnastofnun - af fornköppum berjandi á eldspúandi drekum eru því bara lygasögur, þótt klóraðar hafi verið á dýrmæt skinn. Þessi niðurstaða olli mér auðvitað verulegum vonbrigðum. Ég vildi þó alls ekki gefa upp á bátinn hugmyndina um eitthvað sérstakt og eftirtektarvert í  Bókhlöðusíkinu. Og eftir nokkrar vangaveltur þóttist ég sjá að plan B gæti verið að halda þar krókódíla í stað drekanna. Auðvitað gætu krókódílar  reynst varasamir. Ekki mundi t.d. ráðlegt að fara í fótabað í Bókhlöðusíkinu ( kannske ekki viðeigandi heldur), og jafnvel gæti borið við að dýrin ætu einn og einn óhamingjusaman eilífðarstúdent, sem uppgefinn á baslinu stykki í síkið. Dýrin yrðu þó að mestu fóðruð á sláturafgöngum frá Bændahöllinni. Aðalatriðið fannst mér vera að þessar brynjuðu skepnur langt aftan úr þróunarsögunni, grimmar og stórháskalegar, vektu með gestum Bókhlöðunnar  tilhlíðilega respekt er þeir nálguðust húsið.

 

 

                                                   
   

 

                                                    Ég gaukaði hugmyndinni að kunningja mínum, ágætum háskólamanni sem var í nefnd um frágang lóðarinnar. Sá kveikti þó ekki á krókódílunum og hugmyndin mun ekki einusinni hafa komið til umræðu í nefndinni. En ég get nú ekkert verið að erfa það fálæti eða taka nærri mér, enda vita allir sem til þekkja að mikið skal til svo að bjart ljós kvikni á venjulegri akademískri peru.

 

Nú er enn komið að stórframkvæmdum á Háskólalóðinni og fyrirhugað að reisa þar hús yfir Árnastofnun. Að ytra formi á byggingin að líkjast danskri saumakörfu, en umhverfis hana á að vera myndarlegt sýki. Minna má það nú ekki vera!

 

                                         

 

                                                 

               Þegar er búið að grafa fyrir síkinu og ríflega það, en nú er stopp í bili meðan menn hugsa sitt ráð og reyna að slá á það tölum hve marga milljarða muni þurfa til að fylla holuna. Á meðan geta astronautar virt fyrir sér þetta gap í jarðskorpunni utan úr geimnum

 

 

                                                                                                                                              

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

En nú eru nýir tímar með tækni sem gefur

okkur

                                                                      

19.09.2014

Sænsk stjórnmál.

 

Stefan Löven er hægrikrati.  Hann er grá-jakkafatakarl  innan úr verkalýðshreyfingunni   með langa reynslu af samningaþjarki um kaup og kjör. Þannig er hann  vel  tengdur atvinnurekendaforustunni.  Það þarf ekki að vera slæmt, ætti  þvert á móti verið gagnlegt. Hann er ekki grípandi ræðuskörungur , en maður sér að hann talar af sannfæringu þegar kemur að atvinnumálum.

Augljóslega ætlar hann að vinna sér stuðning  frá hægri. Spark hans í Vinstriflokkinn - sem sumir telja  asnaspark - er því rökrétt upphaf á puði hans við stjórnarmyndun.  

                                                                                                 

 

 

Stefan Löven ásamt Talmannen, þ.e. forseta sænska þingsins. Talmannen leysir ríkisstjórnir formlega frá störfum og veitir umboð til stjórnarmyndana. Þetta er nokkuð merkilegt fyrirkomulag því talmannen er valinn úr hópi þingmanna í samræmi við valdahlutföll flokka í þinginu. Hann er því pólitískur. Til dæmis er núverandi talmann, Per Westerberg, Moderat og pólitískur andstæðingur Lövens. En hlutverk hans við stjórnarskipti er auðvitað einungis formlegt og í samræmi við niðurstöður kosninga. Konungurinn hafði þetta hlutverk þar til fyrir nokkrum árum að þingið tók það af honum.

24.09.2013

Jafnaðarmannaflokkur

Það er ekki eðlilegt að Ísland eigi sér ekki jafnaðarmannaflokk með kjörfylgi upp á 30 - 40%. Nútímalegan lýðræðisflokk, sem stuðlar að frelsi og hagkvæmni og óttast ekki markaðslausnir. Flokk sem jafnframt gætir þess að markaðsöflunum sé ekki sleppt lausum á grunnstoðir þess velferðarsamfélags sem hann vill skapa. Vill skapa skrifa ég, vegna þess að velferðarsamfélag á Íslandi heyrir í besta falli fortíðinni til; hefur jafnvel aldrei verið meira en nafnið. Þetta sannast af stöðu heilbrigðismála í landinu og af því neyðarástandi sem ríkir á leigumarkaði í höfuðborginn - svo einungis tvö dæmi séu tekin. Uppbyggingin - efnisleg og huglæg - sem er lífsnauðsynleg, getur aldrei orðið að veruleika nema þjóðin eigi sér öflugan jafnaðarmannaflokk. Niðurstaðan er því sú að vinstri menn - félagshyggju fólkið - þarf að sameinast. Það getur gerst og kannske er að skapast grundvöllur fyrir varanlegri sameiningu vinstrimanna með kynslóðaskiptum í pólitíkinni. En þótt mikil nýliðun hafi að undanförnu orðið á Alþingi, þá eru þar enn fyrir á fleti einstaklingar sem endilega ættu að taka pokann sinn. Segja má að enn vanti freka fólk út úr stjórnmálunum en í þau. Við þurfum að losna við gömlu kreddurnar - arfleifðina sem nærð var í Alþýðubandalaginu og er enn að einhverju marki haldið tórandi í VG. Við þurfum raunverulegan jafnaðarmannaflokk.

12.02.2013

Frumvarp til náttúruverndarlaga

Undanfarið hefur komið fram réttmæt og vel rökstudd gagnrýni á frumvarpið til náttúruverndarlaga. Ég tek undir þá gagnrýni, vísa til hennar og þarf svo sem engu að bæta þar við.

Þó er rétt að nota tækifærið og árétta að ekki er sama sem merki á milli þess að hafa samráð og þess að óska eftir umsögnum þegar ekki er tekið tillit til innsendra umsagan.

 

Sumir telja frumvarðið hroðvirknislegt.  Það er a.m.k. óhætt að segja að skilgreiningakaflinn er ekki mikils virði. Þegar hafist er handa við að skilgreina þá hafa menn sagt A sem aftur kallar á B. Þarf af segja meira um þetta atriði?

 

Ákvæðin um tjöldun og mismunandi ,,réttarstöðu" þess viðlegubúnaðar sem ferðamenn nota, væri auðveldast að kalla vitleysu, en svo einfalt er málið ekki, heldur skín þarna í gegn sú ofstjórnunarárátta sem einkennir alla þessa lagasmíð.

Af sama toga eru ákvæðin um akstur á snjó og jöklum.

 

Ég tel að í þessu frumvarpi sé almannaréttur markvisst sniðgenginn. Í frumvarpinu er ekki að finna skilgreiningu á hugtakinu og orðið almannaréttur kemur ekki fyrir í markmiðsgrein frumvarpsins. Þar er talað um að tryggja rétt almennings til að fara um landið og njóta náttúrunnar, en af lestri frumvarpsins má ljóst vera að slíkar ferðir á fólk að fara á forsendum kontóristanna í Umhverfisráðuneytinu. Þá hlýtur virðing höfunda frumvarpsins  - að ég ekki segi þjónkun þeirra  - við landeigendur og umráðamenn lands, að vekja sérstaka athygli.

 

Fyrir skattgreiðendur gæti það verið fróðlegt og áhugavert að sjá tölur um kostnað vegna þessarrar mislukkuðu lagasmíðar. Sjá hvað almenningi er gert að greiða fyrir umsagnir og fundasetur allra líffræðimenntuðu embættismannanna, umhverfisfræðinganna, umhverfisstjórnunarfræðinganna og fleiri sérfræðinga sem komið hafa að málinu.  

30.01.2013

Skoðanaskipti

 

Þessi pistill birtist  í gær á Smugunni og er svar við grein Gríms Atlasonar:

 

Ég gerði nú ekki ráð fyrir að forsetinn hefði párað fyrirvara á skjalið með pennanaum sínum um leið og hann skrifaði undir. En ég þori náttúrlega ekki að deila um það við mann sem er svo vel að sér í málunum að hann veit hvað forsetinn hefur hugleitt og hvað ekki, eins og ráða má af grein þinni að þú gerir.

 

Ósvífni liðsins sem nú fleygir steinum úr glerhúsum er með fullkomnum ólíkindum, rétt er það. (Ummæli Björgólfsfeðga í blöðum í gær og dag eru bara lítið dæmi). En við skulum ekki blekkja okkur; ég held að þetta lið ætti ekki séns á að endurheimta völdin í vor ef hin hreina vinstristjórn okkar hefði ekki grafið sér gröf strax í upphafi ferilsins, með tökum sínum á Icesave málinu. Og þeim tökum trúi ég að Steingrímur hafi ráðið fyrst og fremst. (Ekki ástæðulaust að maðurinn er nýbúinn að játa á sig hugsanlegan dómgreindarskort).

Það er varla að maður trúi því að þetta hafi verið eins og það var  þegar maður rifjar upp atburði sumarsins 2009: Fyrsta Icesave brjálæðinu átti að þrykkja í gegn um Þingið óræddu. Þingmenn áttu einungis að fá að skoða saminginn undir trúnaðareiði í sérstökuðu lokuðu herbergi. Hvernig áttu þeir að fara að því að ræða mál sem þannig var lagt upp? Og þjóðin, háttvirtir kjósendur! Kom þeim málið eitthvað við?  Hvað með Nýja Ísland? Stjórnin sýndi ótrúlega þrautseigju í sjálfseyðingunni.

Ekki hef ég trú á að margir telji Ólaf Ragnar til helgra manna, býst við að flesti sem fylgjast með þjóðmálum sjái hann fremur sem pólitískan vígamann. En að vonum er mikill hluti þjóðarinnar honum þakklátur fyrir að hann veitti okkur kost á að stöðva ólánsgjörning ríkisstjórnarinnar. Og hann gerði meira, hann tók til varna fyrir okkur í erlendum fjölmiðlum og var okkar  langöflugasti málsvari á þeim vettvangi.

Þarna  var grunnurinn lagður að þeirri uppreisn æru Íslendinga sem endanlega felst í niðurstöðu EFTA dómstólsins. Og bara það atriði er ómetanlegt eins og ljóst má vera þegar litið er til þess hvernig sumir erlendir fjölmiðlar hafa fjallað um Íslendinga vegna þessa máls á undanförnum árum.  

Þjóðin vann þennan sigur fyrir atbeina forsetans í framhaldi af baráttu Indefencehópsins.

29.01.2013

Bréf til forustunnar

Eftirfarandi bréf sendi ég til Jóhönnu Sigurðardóttur, Dags B. Eggertssonar og Össurar Skarphéðinssonar í júlímánuði 2009, þegar öllu sjándi fólki mátt vera ljóst í hverjar ógöngur var stefnt með þetta mál. Ég fékk málamyndasvar, tölvupóst frá Degi, og hafði á tilfinningunni að honum hefði verið falið að róa þennan áhyggjufulla flokksfélaga. Síðan var bara göslað áfram í foraðinu á grundvelli úreltra hugmynda um meirihlutavald á Alþingi. Þannig var nú staðið við orðin um nýtt Ísland.:

 

Kæru félagar.

Undanfarið hafa verið að koma fram veigamikil rök frá þungaviktarfólki fyrir því að ekki megi samþykkja Icesave-samkomulagið sem fyrir liggur, heldur verði að freista þess að ná betri samningi.

Vægi þessa málfluttnings tel ég að hafi aukist jafnt og þétt. Meðal þeirra sem þannig tjá sig eru aðilar sem ekki verða afgreiddir með ásökunum um ábyrgðarleysi. Nú síðast er vitnað til skýrsla Elviru Mendez, sem er doktor í Evrópurétti. Hún telur að mjög hafi hallað á Íslendinga við gerð samningsins. Þá eru ekki síður athyglisverð ummæli Jóns Daníelssonar, m.a. um breyttar aðstæður á Evrópskum fjármálamörkuðum frá því sem var s.l. haust.

Við sem leggjum okkur fram um að fylgjast vel með þróun mála líðum vissulega fyrir treglega upplýsingagjöf og misvísandi álit aðila um stöðu okkar í nútíð og framtíð.

En eftir vandlega ígrundun er ég  orðinn sannfærður um að samþykkt ríkisábyrgðar á Icesave- samningnum nú væri óráð. Mér sýnist algjörlega ljóst af þeim upplýsingum sem fram eru komnar, að samningurinn sé mjög vondur. Því verði að reyna að ná betri samningi. Í því samhengi gef ég lítið fyrir hávaðann í Steingrími J.  Þykir mér bera nýrra við ef hann er orðinn sá lögspekingur að hann geti véfengt álit virtra fræðimanna á því sviði.

Líf eða fall ríkisstjórnar er í raun smáatriði í samanburði við þá þjóðarhagsmuni sem hér kunna að vera í húfi. Að knýja þetta risavaxna álitamáli í gegn um þingið án tillits til framkominna raka gegn samþykkt  - hugsanlega með minnsta mögulega meirihluta - er hreinlega ekki boðlegt. 

Ljóst er að slík afgreiðsla þessa máls nú mun ekki auðvelda ykkur eftirleikinn: að koma landinu í Evrópusambandið. Þjóðin mun þá alfarið neita að kyssa á vöndinn.

Ég skora á ykkur að bakka nú og taka málið upp á grundvelli nýrra upplýsinga og breyttra aðstæðna. Leita eftir samstöði í þinginu um að allir flokkar vinni að lausn málsins. Fara að ráðum Jóns Daníelssonar og ,, fela samningagerðina bestu erlendum lögfræðingum sem völ er á, óumdeildum sérfræðingum í slíkum samningum”.

Bent hefur verið á svo stórkostlega ágalla á samningnum og allri samningsgerðinni að samþykkt  ríkisábyrgðar að óbreyttu er fráleit.

 

Með félags kveðju,

Haukur Brynjólfsson

 

Sent til:

Formanns Samfylkingarinnar,

Varaformanns Samfylkingarinnar

Utanríkisráðherra

28.01.2013