Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

14.12.2011

Óþarfi

DV. hefur það eftir Angantý Einarssyni, skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu, að nú standi til að endurnýja ráðherrabíla. Nýju bílarnir eigi að vera með óbrjótanlegum rúðum og geta náð 100 km hraða á átta sekúndum.


Ég staðhæfi að þessi bílakaup eru algjör óþarfi. Ráðherrarnir starfa í Kvosinni og þar er stutt á milli staða. Ferðaþarfir ráðherra, svo sem skrepp inn í Borgartún, ætti að leysa með samningum við leigubílastöðvar. Að hver ráðherra hafi sérstakan bíl með bílstjóra, bíðandi eftir stórmenninu dagana langa, er ekki annað en flottræfilsháttur, dýr stöðutákn, með öllu óviðeigandi. Ráðherrar ættu einmitt að gera sem mest af því að ganga um götur meðal fólksins. Og við megum aldrei spilla því að ráðamenn þjóðarinnar geti óhræddir gegnið um meðal almennings.


Ríkið getur svo átt einn eða tvo sérútbúna bíla til að nota þegar hingað koma erlendir þjóðhöfðingjar sem öruggast þykir að hafa á bak við skothelt gler.

12.12.2011

Voðaverk í Norrænahúsinu

Við Silja mín skruppum í Norrænahúsið í dag. Þar var ég tíður gestur á árum áður en hafði nú ekki heimsótt staðinn lengi.  Og þvílík aðkoma ! Búið er að sulla hvítri málningu á salinn. Meira að segja tréverkið í loftinu hefur verið málað hvítt. Andrúmsloftið er þarna eins og í þrifalegri mjólkurbúð um miðja síðustu öld. Ég hefði ekki orðið hið minsta hissa að sjá þar á ferli gerðarlegar maddömmur, hvítklæddar með kappa á  höfði, tilbúnar að ausa upp mjólk fyrir fólkið. En þá mynd þekkir ekki yngra fólk, og ábyggilega ekki arkitektarnir sem hönnuðu þessi ósköp. Þeir hafa gert þetta óvart. Það er samt óþarfi að fyrirgefa þeim.

Búið er að rústa afgreiðslunni og setja þar nýjan skenk, hamingjan hjálpi mér! Hvílík mubla! Skenkurinn virðist hafa verið sóttur í Ikea eða bara Rúmfatalagerinn.

Menn hafa þó ekki lagt í að sulla málningunni á gluggaveggurinn, hann er óbreyttur með sitt flotta tréverk, listum á súlum og kantlímdu sólbekkjunum. Vitni um flotta hönnun, þolin efni og vandaða vinnu.

Verði manni litið út um glugga, í átt að Garði og gamla Náttúrufræðihúsinu, þá ber fyrir augu kræklóttar hríslur sem hefur verið potað niður í hnapp þar á flötinni. Sennilega búast hönnuðirnir við að þar verði ilmandi birkilundur þegar kemur fram á næstu öld. Býst við að frú Vigdís Finnbogadóttir sé verndari reitsins.  

11.12.2011

Undarleg forgangsröðun


Árni Johnsen og vitringarnir byggja milljóna moldarkofa austur í Skálholti. Þegar ég fyrst heyrði um þessa Þorláksbúð datt mér ekki annað í hug en að sú framkvæmd væri fjármögnuð með frjálsum framlögum sem einhverjum sérvitringahópi hefði tekist að skrapa saman. Að þessi bölvaður torfkofi, sem þó er ekki ekta torfkofi, væri byggður á kostnað skattgreiðenda datt mér ekki í hug, hélt að fastar væri haldið um ríkispyngjuna í öllum niðurskurðinum.Nú hefur annað komið í ljós; Þessi vitleysa er á fjárlögum. Þetta er fjárveitingavaldinu til skammar. þvílíkir vitleysingar!

Í síðustu viku var brotist inn á verkstæði vina minna á Ártúnshöfða og stolið þaðan tólum og tækjum. Að auki stálu þjófarnir einum verkstæðisbílnum til þess að flytja þýfið á brott. Nú hefur komið í ljós að þjófarnir notuðu svo bílinn við fleiri innbrot næstu daga, enda er þetta rúmgóður vinnubíll og þægilegur til að flytja góss. En það sýnir hvernig komið er fyrir löggæslunni hér í Reykjavík að þjófar skuli aka hér um, að því er virðist óhræddir, einhverja daga, á stolnum bíl, og stunda sína iðju sem mest þeir mega.   

Talið er að glæpagengi séu að ná hér fótfestu og skipti nú ,,markaðnum" á milli sín. Gengin standi ekki sjálf í innbrotum eða smærri afbrotum, en öll slík ,,starfsemi" verði leyfisskyld og gjaldskyld til gengjanna.  
Næsta stig sé svo að gengin fari að bjóða fyrirtækjum, og einstaklingum ef svo ber undir, vernd. Nokkuð dimm framtíðarsýn. Það er ábyggilega búið að skera of mikið niður í löggæslunni. Á sama tíma leyfir fjárveitingavaldið  sér að fleygja milljónatugum í torfkofa austur í Skálholti til þess að þóknast einhverri hreppapólitískri forheimsku.