Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

11.06.2007

Meira grín á Arnarhólnum


Það var spaugilegt að heyra bankastjóra í Seðlabankanum taka undir það  álit sendinefndar Aþjóðagjaldeyrissjóðsins að í komandi kjarasamningum þurfi að sporna gegn launahækkunum í opinbera geiranum. Þessi opinberi starfsmaður, sem er nýbúinn að fá sér 200 þús. kr. hækkun mánaðarlauna og er, samkvæmt fréttum, með a.mk. 1500 þús.kr. á mánuði, bendir nú öðrum á þrönga veginn. Ég veit ekki hvort meiri vitleysan var höfð í frammi á  Arnarhólnum í gamla daga þegar rónarnir réðu svæðinu með bokkur sínar. Þá var ekki búið að finna upp Seðlabankann en vextir voru 2,5% í landinu.


07.06.2007

Rétt skal vera rétt - mörk milli eignarlanda og Þjóðlendna



Á grundvelli laga um Þjóðlendur, sem sett voru 1998, er nú unnið að því að skera úr um mörk á milli eignarlanda og almenninga í landinu. Þetta er þörf og tímabær aðgerð. Jafnframt er þýðingarmikið að fólk láti ekki villa sér sýn en geri sér grein fyrir því að í framkvæmd Þjóðlendulaganna felst ekki að eignir sé teknar af landeigendum heldur hitt, að  mörkin milli eignarlanda og almenninga - sem nú nefnast Þjóðlendur - eru ákvörðuð með lögformlegum hætti. Þjóðlendur eru sameign þjóðarinnar eins og nafnið bendir til. Annars vegar eru um að ræða almannahagsmuni sem felast í almannarétti, hins vegar einkaeignarrétt. Verkefnið er eins og áður segir, að kveða endanlega á um mörkin þar á milli.  Þjóðin öll á og hefur alltaf átt almenninga þ.e. svæðin utan eignarlanda. Þannig var það í gamla bændasamfélaginu öndvert við það sem sumir halda fram í dag.Um rétt allra landsmanna í þessu efni vitna ljóslega hinar fornu lögbækur - Jónsbók og Grágás.

Þær miklu þjóðfélagsbreytingar sem urðu á 19. og  20. öld, þegar fólkið safnaðist úr sveitunum í þéttbýlin, svipta okkur - fólkið á mölinni - ekki réttinum til landsins utan eignarlanda. Þær breytingar veita landeigendum engan rétt til að færa út landamerki og eigna sér þannig sneiðar af almenningum sem eru eins og áður segir sameign okkar allra.

 Langt yfir 90% þjóðarinnar er landlaust fólk í þéttbýli, landeigendur eru einungis lítið brot af þjóðinni. Við hljótum að bregðast hart við tilraunum örfárra landeigenda til að slá eign sinni á almenninga - braska með þá og selja okkur þar aðgang eins og komið hefur fram að suma þeirra dreymir nú um að gera. Það er augljóst hlutverk jafnaðarmannaflokks að gæta þess að almannaréttur sé að fullu virtur.

Oftrú á þinglýsingum fyrri tíma

Auðvitað hafa  ekki allar lýsingar landeigenda á eigin landamerkjum staðist. Það getur skýrst af því að þinglýsingar eru misjafnlega marktækar. Þetta  má m.a. sjá af dómi Hæstaréttar um Nýjabæjarafrétt. Í því máli og fleirum hefur Hæstiréttur hafnað gildi þinglýsinga einfaldlega vegna þess að rétturinn hefur þá komist að þeirri niðurstöðu að landi hafi verið þinglýst án þess að eignamörk þess hafi verið könnuð til hlýtar. Af marklausum þinglýsingum má greinilega sjá tilhneigingu til þess að ganga á almenninga og þóknast þannig kröfum um eignarrétt einstaklinga á landi.

 

 

Vönduð vinna

Starf Þjóðlendunefndar er einmitt til þess unnið að komist verði að réttum og endanlegum niðurstöðum um mörk milli eignarlanda og almenninga. Þess vegna þarf að lýsa kröfum og kröfur eru ekki sama og niðurstaða, þótt sumir landeigendur tali nú þannig til þess að villa fólki sýn. Óbyggðanefnd  - skipuð mönnum með hæfi dómara - metur kröfurnar og sker úr um réttmæti þeirra. Úrskurðirnir byggjast umfangsmikilli gagnasöfnun og gríðarlegri heimildavinnu sem er í sjálfu sér ómetanleg. Uni landeigandi ekki úrskurði Óbyggðanefndar getur hann farið með mál sitt fyrir dómstóla; Héraðsdóm, Hæstarétt og jafnvel Evrópudómstólinn. Málskostnaður er þá greiddur af almannafé því landeigandi getur fengið gjafsókn til þess að verja rétt sinn án tillits til efnahags hans, eins og þó gildir almennt um leyfi til gjafsókna.

Þetta er gott fyrirkomulag því það má hvergi vera vafi á að einstaklingar haldi rétti sínum gagnvart ríkinu. Öll þessi mikla og vandaða vinna Þjóðlendunefndar, Óbyggðanefndar og dómskerfisins stefnir að réttum og þar með sanngjörnum niðurstöðum. Þannig hefir frá upphafi verið unnið á grundvelli laganna um Þjóðlendur;  fullkomlega faglega með loka niðurstöðu frá Hæstarétti.

Ábyrgðarlaus málflutningur

Nú er nokkur óvissa um framtíð þessa verkefnis. Svo er að sjá að samtökum landeigenda hafi með frekju og offorsi tekist að rugla svo einhverja stjórnmálamenn að farið var að tala um að breyta því verklagi sem viðgengist hefur til þessa í þjóðlendumálum.  Jafnvel að breyta sjálfum Þjóðlendulögunum. Ofstæki og blekkingavaðall sumra landeigenda undanfarið hefur verið með ólíkindum. Þeir tala augljóslega  gegn betri vitund þegar þeir kalla kröfugerð Þjóðlendunefndar eignaupptöku og gefa þannig í skyn að  Þjóðlendunefnd hirði eignir af fólki án frekari umsvifa. Formaður samtaka landeigenda sagði nýlega að Hæstiréttur hefði ,,misst sig" í tilteknu máli.  Sá sem þannig talar virðist hvorki una lögformlegum aðferðum við úrlausn mála né virða réttarkerfi landsins. Enda var næsta skref að  leita til Framsóknarflokksins sem fúslega tók að sér að flækja málið. Það varð ljóst þegar fram kom í fréttum að loknu  flokksþingi Framsóknar í vor, að ráðherrar flokksins ætluðu  að ræða við Sjálfstæðismenn með það fyrir augum að slakað yrði á kröfugerð Þjóðlendunefndar og samið um framkvæmd laganna.  

Þannig reyndu hinir ofstækisfyllstu landeigendur að fá sérstaka meðferð - utan við lög og rétt - með fulltyngi Framsóknarflokksins.Þeir náðu reyndar þeim árangri að fjármálaráðherrann var kominn á hraðan flótta í þjóðlendumálum á síðustu vikum fyrri ríkisstjórnar. Með því var öllu verkefninu stefnt  í uppnám. Ekki er við því að búast að þeir landeigendur sem búa við úrskurði og dóma sem þegar hafa fallið í þeirra málum gætu  unað við óbreyttar niðurstöður ef  verklagi yrði breytt og þeim sem á eftir koma boðið upp á annarskonar málsmeðferð og  jafnvel samninga.

Framtíðin getur orðið björt.

Það er höfuðnauðsyn að styðja nú fjármálaráðherrann í því að ljúka Þjóðlendumálum í samræmi við það sem lagt var upp með, enda getur ríkisstjórnin verið þess fullviss að þar vinnur hún gott verk í þágu þjóðarinnar.

 Framundan eru mörg merkileg verkefni sem Jafnaðarmenn hafa nú fengið umboð til að takast á við næstu árin. Nú þarf að hefja almannarétt til virðingar og ljúka því þjóðþrifa verki að  skera endanlega úr um mörk milli eignarlanda og almenninga:  Þjóðlendna.

Eignarrétturinn er vissulega heilagur grundvallarréttur í samfélagi okkar, varinn í lögum og stjórnarskrá. Þjóðlendulögin og framkvæmd þeirra  beinast á engan hátt gegn eignarréttinum.

 

 

 


06.06.2007

Fyrst apríl ?

Er aftur kominn fyrsti apríl, eða er alltaf fyrsti apríl  í   okkar þjóðfélagi ?  Fáránlega spurt  en tilefnið er fáránleikinn sjálfur þ.e. fréttin um 200 þús. kr. launahækkun til bankastjóra Seðlabankans.Hvernig fara menn að því að vinna fyrir 1400 þús.kr.á mánuði ríkisstofnun ?
Spyrja má um gagnsemi Seðlabankans,væntanlega ræðst hún mikið af mannviti þeirra sem þar stjórna. Menn sem ákveða sjálfum sér 1400 þús. kr. mánaðarlaun í opinberri stofnun vaða ekki í vitinu, þeir stjórnast af græðgi - ekki dómgreind.