Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

27.04.2010

Að velja frambjóðendur án aðkomu BaugsÓlfanna

  

 

   Ekki er trúlegt að sá sem þiggur milljónir að gjöf sé gefandanum með öllu óháður. Raunar er ekki hægt að bjóða þeim sem gagnrýna stjórnmálamenn fyrir að þiggja háa fjárstyrki upp á slík svör.Umræðan og gagnrýnin nú setur stjórnmálin, einstaklinga og flokka í vanda. Hvernig á að fjármagna stjórnmálaþátttöku s.s prófkjör í framtíðinni? Rætt er um skýrari reglur, hámark upphæða og opið bókhald. Allt svona frekar flókið og býður upp á krókaleiðir pólitíkusa.

   Til eru þeir sem vilja hverfa alveg frá prófkjörum en taka í staðinn upp hina gömlu aðferð, uppstillingu. Sú hugmynd er ekki aðlaðandi: Uppstillinganefndir = flokksklíkur = flokkseigendafélög = úldnir uppvakningar.

   Auðveldlega er hægt að losna bæði við prófkjör og uppstillinganefndir. Hér skal sett fram hugmynd - tillaga - að aðferð til þess að velja frambjóðendur á lista með ódýrum og einföldum hætti, án tilstyrks Baugsara eða Björgólfa hvers tíma: 


i)      Í aðdraganda kosninga auglýsir stjórnmálaflokkur eða formlegt framboð eftir fólki sem vill bjóða sig fram til þings  eða sveitastjórna, eftir því sem við á.


ii)      Viljugir frambjóðendur leggja fram formlega umsókn um þátttöku ásamt tilteknum persónuupplýsingum og sakavottorði.


iii)      Nefnd eða starfshópur innan flokksins/framboðsins fer yfir umsóknir og kannar kjörgengi umsækjenda.


iv)     Úr hópi hæfra umsækjenda er síðan valið og raðað á lista með slembiúrtaki í tölvu.


v)       Kosningabaráttuna geta svo flokkarnir rekið fyrir þau framlög sem þeir hafa skammtað sér úr ríkissjóði. Litgreiningar og brosnámskeið verða  frambjóðendur að kosta sjálfir telji þeir þörf fyrir slíkt.

  
    Þessi tillaga er sett hér fram til skoðunar og nánari útfærslu þótt undirritaður búist svo sem við að hún sé full nýstárleg fyrir stjórnmálastéttina. Í þeim hópi virðast flestir vera ónæmir fyrir frumlegum hugsunum.  

   
   Til viðbótar er lögð til sú regla að enginn sitji lengur en þrjú kjörtímabil, tóf ár, á þingi eða í sveitarstjórn.

 

23.04.2010

Að fortíð skal hyggja.....

Huggun gæti það orðið hrelldri þjóð ef  finnanleg væri, sem næsti forsetaframbjóðandi, kona sem gæti minnt okkur svolítið á Vigdísi. Einhver settleg eldri dama jafnvel þótt að fylgdi henni karlskarfur. En hann yrði þá að vera búinn að læra að halda sig á mottunni.

18.04.2010

Öskufall í Reykjavík

Þéttbýlið hér á Reykjavíkursvæðinu er í ca 120 - 130 km fjarlægð frá Eyjafjallajökli. Við ákveðin skilyrði gæti orðið öskufall hér og þá einnig í kauptúnum fyrir austan fjall sem eru enn nær gosinu. Samkvæmt langtíma veðurspsá gæti þetta gerst um næstu helgi.
Séu kornin í öskunni jafn illskeytt og lýst hefur verið - hrjúfar glerflísar sem hugsanlega skaða lungu fólks - þá kann að vera um mjög alvarlegt mál að ræða sem heilbrigðisyfirvöld hljóta að bregðast við. Vonandi er að til sé nægjanlegt magn af rykgrímum í verslunum hér, eða  e.t.v. hjá Landlækni og Almannavörnum. Hvað með börn í skólum og á leikskólum, ætli að til sé áætlun um varnir þeirra ef til kemur ?


Það er sérkennilegt að fjölmiðlar virðast ekki gefa þessu atriði gaum þrátt fyrir mikla og góða umfjöllun um gosið og afleiðingar þess.

11.04.2010

Málfrelsisfélag ?

Ambassadorinn Svavar Gestsson skrifaði skondna grein í Fréttablaðið á dögunum og kvartaði  mjög undan orðræðunni í bloggheimum. Hann stakk upp á að stofnað verði málfrelsisfélag.  Það er skrítin tillaga því það sem hann lýsir og kvartar yfir er nú einmitt málfrelsið. Það spannar litróf umræðunnar allt frá prúðmannlegri rökræðu niður í ömurlegt drullumall í skjóli nafnleyndar. Eitthvert fínnamannafélag, jafnvel þótt kallað væri málfrelsisfélag, getur engu bætt þar við.

 

Annars verð ég að játa að mér finnst nokkuð spaugilegt að fylgast með hinum gamla félaga Svavari Gestssyni, sem nú er fínn ambassador, nálgast hina ódönnuðu íslensku umræðu sem hann augljóslega líkir við drullupoll. Hann rekur tána ofan í - getur bara ekki látið það vera, gamli ritstjórinn - en fær á sig slettur og ber sig illa. Mig minnir nú endilega að félagi Svavar hafi ekki verið sá hógværasti í ummælum um menn og málefni á meðan hann var skylmingaþræll á sviði stjórnmálanna. En nú er auðvitað búið að pússa hann allan upp og hengja á hann orðu svo hann geti verið með fínu fólki. Það er ljóst að hann kann ekki við sig í bland við orðháka sem enga prúðmennsku kunna og aldrei fá orðu - sem bertu fer. Því vekur furðu að ambassadorinn skuli ekki halda sig frá þessum óþverra. En hann á bágt með sig og  vill endilega telja fólki trú um að Icesave-samningur hans hafi verið góður samningur. Það er vonlaust verk og ég get alveg séð fyrir mér hvernig grimmur ritstjóri Þjóðviljans fyrr á tímum hefði meðhöndlað þá menn sem fært hefðu þjóðinni slíkan samning. Þeir hefðu verið kallaðir undirlægjur og auðvaldsþý, bara svona til að hefja messuna, áður en ritstjórinn hefði virkilega snúið sér að því að taka þá í gegn.

 

Reyndar má nefna annan ambassador sem ekki virðist rótt um þessar mundir, þótt með öðrum hætti sé. Hann skrifar vikulega pistla í Fréttablaðið af þúfu fyrir austan fjall og virðist nú helst hafa áhyggjur af því að þjóðin komi saman til stjórnlagaþings og fari að segja mannvitsbrekkunum á Alþingi fyrir verkum.


Það merkilega er að með þessum tveim ókyrru ambassadorum eru þau líkindi að báðir eru þeir fyrrverandi ritstjórnar, þingmenn, ráðherrar og flokksformenn.

 

Kunningi minn einn segir að  ambassatorarnir séu að ganga aftur í pólitík, þeir séu eins og draugar sem ekki geti legið kyrrir  Slíku tali er ég ósammála, mér finnst að þeir séu of snotrir menn ( hér er vísað til útlis) til að líkja megi þeim við drauga. Á hinn bóginn finnst mér að þátttaka þeirra í stjórnmálum sé fullreynd og að frekari framlög  þeirra á því sviði séu óþörf. 

06.04.2010

Veiðidagbók 2010

 

Furðumargt athyglivert er að finna  í veiðidagbók ársins frá Umhverfisstofnun. Leiðara skrifar Bjarni Pálsson deildarstjóri hjá stofnuninni. Þar segir m.a.: ,, Umhverfisstofnun er að hefja vinnu við stefnumótun í sjálfbærri veiðistjórnun og mun kalla til þess hina ýmsu hagsmunahópa til samstarfs til þess að fá sem flest sjónarmið fram". Með tilliti til þess hve mjög þessi stofnun hefur þanist út á þeim fáu árum sem hún hefur verið til, þá spyr maður fyrst við hvað er átt með sjálfbærri veiðistjórnun. Er þar átt við hinn ört vaxandi stofn fræðinga, stjórnenda og umhverfisstjórnunarfræðinga sem stöðugt búa sér til verkefni byggð á hinni fábreyttu veiðifánu landsins, eða eru það veiðistofnar sjálfir sem embættismennirnir ætla að stjórna til sjálfbærni ? Þá er rétt að halda því til haga að stofnar veiðidýra og fugla á Íslandi hafa verið ágætlega sjáfbærir (*1) fyrir daga Umhverfisstofnunar.  


Á hinn bóginn hljómar það vel að til standi að efna til samstarfs við þá sem hagsmuni eiga undir fyrirhugaðri veiðistjórnun. Þar hlýtur einkum að vera átt við skotveiðimenn og veit ég reyndar ekki um svo marga aðra hópa sem þarna hafa hagsmuna að gæta. En samstarfsyfirlýsingu ber að fagna, hún má teljast nýmnæli því veiðistjórnun undanfarinna ára hefur einkennst af yfirgangi gagnvart skotveiðimönnum.  Í samræmi við ákvæði  veiðilaganna, nr.64 1994,  starfaði sk.villidýranefnd nokkur fyrstu árin og var ráherra til rágjafar um allt er snerti veiðar og veiðidýr. SKOTVÍS átti fulltrúa í nefndinni sem var mjög gagnlegur vettvangur skoðanaskipta milli stjórnsýslunnar og þeirra sem hagsmuna áttu að gæta varðandi veiðinytjar. Illu heilli var nefndin slegin af með tilkomu Umhverfisstofnunar.  Í núgildandi útgáfu veiðilaganna er þó eftirfarandi ákvæði: Um stefnumótandi mál um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum skal haft samráð við Bændasamtök Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, hreindýraráð að því er varðar hreindýr, Skotveiðifélag Íslands sem og áhuga- og hagsmunasamtök um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.


Ekki verður betur séð en að brotið hafi verið gróflega gegn þessu ákvæði laganna varðandi Vatnajökulsþjóðgarð, samanber formleg mótmæli stjórnar SKOTVÍS  þar um.

Fólkið í landinu á lögvarinn rétt til skotveiða í almenningum -þjóðlendum- samanber 8. grein veiðilaganna. Líklega  þarf að grafa þessa staðreynd í borðplöturnar í  Umhverfisráðuneytinu.


Saga þess ráðuneytisins hefur verið skondin þótt ekki sé hún löng. Ráherrarnir koma og fara, þeir máta stólinn hver af öðrum, derra sig lítilsháttar og hverfa á braut. En stöðugur virðist standa einhver valdahópur sem orðinn er til umhverfis ráðuneytið. Hann fer offari í friðlýsingum og hundsar rétt almennings til landsins. Þetta lið virðist staðráðið í að taka völdin í þjóðlendunum og leggja þær undir erlendan túrisma, en ferðaþjónustan er að verða hin heilaga kýr landans í stíl við laxeldis og loðdýra brjálæði fyrri ára.



(*1)  Orðið sjálfbærni er í tísku um þessar mundir. Ég vil skilja það sem lýsingu á jafnvægisástand, t.d. hæfni dýrastofns til að þola afrán.