18.04.2008
Umræða um skólagjöld er aftur komin í gang og er þá einkum átt við gjaldtöku í Háskóla Íslands. Nú eru menn að saka flokkinn minn, Samfylkinguna, um að vera ekki í heilu lagi á móti skólagjöldum. Það er augljóst að í stórum flokki er breidd í skoðunum og slíkt á að sjálfsögðu við um Samfylkinguna. Það er líka ljóst að Samfylkingin gekk til síðustu kosninga með þá stefnu að ekki skyldu tekin upp skólagjöld á kjörtímabilinu. Ég vona hinsvegar að í flokknum séu nægjanlega margir raunsæismenn í þessum efnum til þess að stuðningur við skólagjöld í H.Í. verði þar ofaná áður en langt um líður.
Ég hef lengi talið að það geti ekki gengið að banna H.Í. að innheimta skólagjöld. Hvernig á skólinn að standast samkeppni við aðra háskóla sem njóta skólagjalda? Jú, mismuninn eiga skattgreiðendur bara að borga. Sú hlýtur að vera skoðun þeirra sem eru á móti skólagjöldum, þ.e.a.s. þeirra sem hugsa þá eitthvað um það hvaðan peningarnir eigi að koma. Það er rétt sem Egill Helgason bendir á að eðlilegt sé að samtök stúdenta lýsi sig andvíg slíkri gjaldtöku. Það er skiljanleg hagsmunagæsla þess fólks. Þó er ekki allt ungt námsfólk þessarar skoðunar, sú afstaða er líka til meðal háskólanema að frálleitt sé að fólki séu að öllu leiti gefin þau verðmæti sem háskólamenntun er.
Auðvitað fær enginn menntun fyrir ekki neitt, ekkert fæst fyrir ekki neitt.Að afla sér menntunar kostar mikla vinnu árum saman. Það kosta líka að launavinnu sé að miklu leiti skotið á frest en á það ber að líta sem fjárfestingu til framtíðar.
Mér finnst, ekki síst vegna frétta síðustu daga úr heilbrigðisgeiranum, að það megi setja málið í það samhengi að spyrja hvort fólki sem samfélagið hefur veitt dýra menntun finnist yfirleitt að það eigi þessu samfélagi eitthvað að gjalda. Sú tilfinning virðist a.m.k. ekki vera rík hjá því sjálftökuliði sem nú er ekki hægt að semja við um gjöld fyrir læknisverk. Allt þetta fólk, sérfræðingar á hinum ýmsu sviðum læknislistarinnar, hefur fengið grunn sinnar miklu mennturnar án skólagjalda. Sumir hafa að vísu greitt skólagjöld í framhaldsnámi erlendis en það er misjafnt og fer eftir því hvert námið var sótt.
Nú um stundir eru sumir þessara sérfræðinga önnumkafnir við að laga bilaða liði útslitinna skattgreiðenda hér heima. Þeir fræsa og bora, slípa og líma en gæta þess vandlega að kort sjúklingsins sé straujað áður en aðgerðin hefst og að hann nái nú að kvitta áður en ómegin svæfingarinnar yfirbugar hann. Greiðslur frá Tryggingastofnun eru hér sem dropi í hafið.
Aðrir sérfræðingar ganga nú hart fram í að rukka foreldra barna sem þurfa sérstakra aðgerða við vegna missmíða, s.s. klofins góms.
Og tannlausir mega þeir gamlingjar vera sem ekkert er af að hafa. Þeir geta þá bara étið súpu ef þeir hafa ekki handbær hundruð þúsunda til sérfræðinganna sem gera við tennur og smíða gerfigóma en eru með öllu ófáanlegir til að semja við Tryggingarstofnun um ásættanlega gjaldtöku fyrir verk sín.
Ég vil í lokin geta þess að hér ræður ekki skrifum ergelsi gamals manns; ungt háskólafólk í fjölskyldu minni benti mér á samhengið milli ókeypis menntunar og samfélagslegrar ábyrgðar. Ég er stoltur af því fólki.
05.04.2008
Ég er lítið fyrir það að deila á dómara enda treysti ég því að þeir vinni eftir landsins lögum. Í sakamálum er sönnunarbyrðin hjá ákæruvaldinu, vafa ber að túlka sakborningi í vil. Löglærður vinur minn segir mér að grunnhugsunin sé sú að betra sé að dómar séu vægir en of þungir og betra sé að sekur maður sleppi við refsingu en að saklaus maður hljóti sektardóm. Þetta er sem sagt grundvallarviðhorf í réttarríkinu sem við erum svo lánsöm að búa við. Það hvarflar ekki að mér að ég geti betur metið sekt eða sýknu heldur en dómarar. Þess vegna legg ég ekki í vana minn að taka undir sleggjudóma um störf dómstólanna sem öðru hverju verða svo fyrirferðarmiklir í umræðunni.
Nú get ég samt ekki orða bundist vegna dóms yfir ofbeldismanni sem sagt er frá í fjölmiðlum í dag að hafi ýtrekað ráðist á fyrrverandi konu sína með barsmíðum. Fyrirsögn Fréttablaðsins er: ,, Átta mánuðir fyrir gróft ofbeldi". Þetta hljómar nokkuð vel, rétt eins og að fast sé tekið á málinu, en í fréttinni kemur svo fram að fimm mánuðir eru skilorðsbundnir, svo berserkurinn þarf einungis að sitja í tugthúsinu í þrjá mánuði. Samkvæmt frásögninni liggur fyrir að maðurinn hefur hvað eftir annað lúbarið konuna, dregið hana á hárinu og sparkað í hana liggjandi. Þá braust hann einu sinni inn til konunnar til þess að misþyrma henni. Braust inn á heimili hennar ! takið eftir því !
Það hlýtur að vera þrúgandi tilfinning að vita sig ekki í fullkomnu skjóli inni á heimili sínu. Vera ekki í öruggri höfn eftir að komið er þangað inn og dyrunum hefur verið læst. Mega eiga von á því að hurðinni sé sparkað upp og inn vaði ofbeldismaður með höggum og spörkum.
Refsiramminn fyrir umrætt brot er sagður 12 mánuðir. Mér finnst að fyrir svona framferði þurfi að refsa svo rækilega að viðkomandi muni eftir því - líka næst er hann dettur í það.
Lítil viðbót: Í dag, þ. 5. apríl, er enn sagt frá dómum yfir ofbeldismönnum. Tveir menn voru nýlega dæmdir fyrir húsbrot og að ráðast, að því er virðist að ósekju, á mann á heimili hans - í viðurvist barna hans - og veita honum ,,nokkra áverka", eins og það er orðað í fréttinni. Annar árásarmannanna hlaut sex mánaða fangelsisdóm fyrir tiltækið, þar af fjóra skilorðsbundna, hinn fékk þrjá mánuði, að fullu skilorðsbundna.
Þegar að er gáð þá var þarna ekki einungis um að ræða aðför að heimilisföðurnum sem hlaut hina sýnilegu áverka. Fjölskyldan varð fyrir árás. Það þarf enginn að halda að svona atburður hverfi úr vitund barna um leið og óþokkarnir fara af vettvangi.
Mér finnst sú spurning blasa við hvort í réttarríkinu þurfi ekki að virða heimilið meira en nú virðist gert. Hvort við eigum ekki að standa fast á því að heimilið sé í raun heilagt skjól þeirra sem þar búa. Í samræmi við það verður að taka mun harðar á því en nú er gert þegar ráðist er inn á heimili fólks. Mér finnst að svo eigi að vera og mæli með því.
Ég vona a.m.k. að þrjótunum sem hér um ræðir verði ekki boðið að dvelja á 3ja stjörnu hótelinu á Akureyri þessa fáu mánuði sem þeir verða teknir úr umferð.
01.04.2008