Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

31.05.2005

Evrópustjórnarskráin.

Evrópustjórnarskráin.
Ég er sammála því að ,,evrópusinnar" þurfa ekki að sýta afdrif EB-stjórnarskrárinnar; með þessari niðurstöðu er valdið betur falið og því auðveldara að tala fyrir inngöngu okkar í EB. Ég hef á hinn bóginn ráðlagt fólki að horfa á hnattlíkanið, átta sig á legu landsins á flekaskilum kúlunnar og spyrja sig því í ósköpunum við ættum að þrá það heitast að komast endanlega innfyrir tollmúra gömlu Evrópu með allar sínar kreddur, atvinnuleysið og almenn vandræði.Á slíkri þankastund virðast kostir þess augljósir að standa utan EB,stunda fríverslun við bæði Ameríku og Evrópu og nýta þannig til fulls staðsetningu okkar í jarðarkúlunni. Þetta var nú um hagræna hlið málsins, en sé vikið að hinni pólitísku hlið þess aftur þá er þarflegt að minnast greina Einars Olgeirssonar frá 7. áratugnum um pólitíska þróun í Evrópu. Þau skrif virðast nefnilega ætla að standast betur tímans tönn en flest annað sem Einar og stjórnmálamenn honum samtíða hafa sagt og skrifað.
Stórauðvaldið í Evrópu er samt við sig og hreðjatök þess á stjórnmálamönnum víða sýnileg.Það mun því halda áfram og leita  leiða til að koma fram vilja sínum þótt almenningur hafi sagt nei að þessu sinni.

Haukur Brynjólfsson.

19.05.2005

Óvarlegt tal lögreglumanna.

Lausmælgi lögreglumanna.

 

   Framganga háttsettra lögreglumanna í DV. Þ. 14. maí sl. er þeim ekki til sóma. Þar gagnrýna yfirmenn í lögreglunni í Reykjavík Hæstarétt og lýsa óánægju sinn i með þá  niðurstöðu réttarins  að sýkna fyrrverandi lögreglumann af peningastuldi. ,, Menn eru ekki sáttir" er haft eftir Geir Jóni Þórissyni yfirlögregluþjóni um niðurstöðu Hæstaréttar. ,, Það er erfitt fyrir þá sem eftir eru í fíkniefnadeildinni............", segir hann líka.

  

   Nú hefur undirritaður ekki hugmynd um hvað þessir lögreglumenn hafa fyrir sér í gagnrýni sinni. En honum hefur ávalt fundist mikið til um það sem hann lærði á sínum tíma í barnaskóla, nefnilega að á Íslandi búum við við réttaröryggi. (Á það kann þó að hafa fallið nokkuð  vegna Guðmundar og Geirfinnsmála ). En fullyrða má að hér er saklaust fólk ekki í fangelsum. Það er vegna þeirrar grundvallar reglu að hver maður skal vera saklaus nema á hann sé  sönnuð sekt. Niðurstaða Hæstaréttar var einmitt sú að ekki hafi tekist að sanna sekt lögreglumannsins fyrrverandi. Hann er því saklaus samkvæmt reglunni.  Í  þessu felst  réttaröryggið sem við erum svo lánsöm að búa við. Gaspur yfirmanna í lögreglunni að fenginn niðurstöðu Hæstaréttar vekur því alvarlegar spurningar um hæfi þeirra. En málið allt hlýtur einnig að vekja uppi spurningar um faglegt eftirlit innan lögreglunnar. Af hverju lágu handlagðir peningar á glámbekk eins og fram hefur komið í fréttum að verið hafi ? Þetta er sérlega ámælisvert vegna fyrri áfalla sem lögreglan hefur orðið fyrir, en ekki eru mjög mörg ár síðan lögreglan í Reykjavík gat ekki gert grein fyrir hvað orðið hafði  af verulegu magni af handlögðum fíkniefnum. Misræmi var í magni haldlagðra efna annarsvegar og efna sem var eytt hinsvegar. Ef rétt er munað vantaði þarna á þriðja kíló af dópi. Hver sem skýringin kann að vera -  er t.d.   hugsanlegt að efnum hafi  verið eytt án skráningar -  þá var þetta vont mál sem menn hefðu átt að draga þann lærdóm af að þeir létu ekki handlögð verðmæti oftar liggja á glámbekk.

 

   Lögregla er augljóslega ekki opin stofnun, þar hlýtur margt að vera í gangi hverju sinni sem almenningur á ekki að hafa vitneskju um  a.m.k. meðan  unnið er að viðkomandi máli. Þetta er fullkomlega eðlilegt og nauðsynlegt en býður jafnframt heim hættu á klíkuskap og jafnvel  misferli innan hinnar  lokuðu stofnunar. Það er því rétt að að beina þeirri spurningu til dómsmálaráðuneytis hvort innra eftirlit með með lögregluembættum  almennt sé fullnægjandi.

 

Haukur Brynjólfsson.

18.05.2005

Leki frá Ingibjörgu.

,, Hið mikla leyndarmál sem enginn veit".

 

Nýleg blaðafyrirsögn:  Ingibjörg harmar leka af skrifstofu Samfylkingarinnar. Þetta er ljótt, hugsaði ég. Hefur nú njósnari frá íhaldinu komist til starfa á skrifstofunni okkar og veitt viðkvæmum upplýsingum til Valhallar? En fljótt kom í ljós að hið voðalega leyndarmál er nauðaómerkilegt  og felst í því  að þekkt framsóknarkona skráði sig í Samfylkinguna til að styðja Ingibjörgu. (Skyldi hún þá líka hafa gengið úr Framsóknarflokknum) ?

Á þessu eru ýmsir fletir:

    1)  Augljóslega er málið svona viðkvæmt fyrir Ingibjörgu vegna ásakana hennar fyrir nokkru um stuðning sjálfstæðismanna við Össur. Því var gripið  til þess ráðs að reka konu  af skrifstofunni og tala hátt um persónuverndarlög í þeim tilgangi að beina athygli fólks frá aðalatriði málsins: stuðningi Framsóknarkonu við Ingibjörgu.

    2)  Það getur varla verið mikið leyndarmál að  manneskja sé í tilteknum stjórnmálaflokki. Ekki nema þá að hún sé þar í annarlegum tilgangi s.s. þeim að hafa áhrif á formannskjör án þess að ætla að leggja annað af mörkum.  Ummæli Ingibjargar sjálfrar þ.e. að stuðningskonan góða verði að eiga það við sjálfa sig  hvort hún starfi í Samfylkingunni í framhaldinu, segja auðvitað allt sem segja þarf um það  atriði.

    3)   Það er alvarleg og harkaleg aðgerð að reka manneskju úr starfi og það án áminningar eða viðvörunar. Það virðist liggja fyrir að konan sem rekin var  hafi  brotið vinnureglu með því að hafa með sér gögn af skrifstofunni til að vinna með heima. Það liggur hinsvegar ekki fyrir að upplýsingar um hið einstaka atkvæði Ingibjargar séu þaðan komnar. Enda eru slíkar pælingar út í hött;  upplýsingar um fólk liggja um allt öllum aðgengilegar. Ekki  er vitað til þess að stuðningsmenn Össurar hafi látið sér bregða þótt fjölmörgum þeirra hafi verið boðið að koma á kosningaskrifstofu Ingibjargar. 

Brýnasta spurningin núna er hvort brotið hefur verið á konunni með brottrekstri af skrifstofunni.  Vonandi leitar hún réttar síns og það  eftir lögformlegum leiðum ef með þarf.

 

Haukur Brynjólfsson.