16.09.2005
Nú höfum við nokkur úr fjölskyldunni verið á ferð í Danmörku og Svíþjóð. Ferðalaginu lauk með vikudvöl í Kaupmannahöfn. Við leigðum íbúð úti á Amager þar sem við höfum verið áður og líkað vel. Þangað berst stöðugur dynur frá flugvélum á Kastrup og verður stundum að dimmu urri er virðist eiga upptök sín í dökkrauðum múrsteinshúsunum. Þannig er undirspilið við daglegt líf á svæðinu. Gamli, sköllótti rakarinn í Östrigesgade 53, sem klippti mig fyrir 80 krónur, sagðist ekki heyra þetta lengur. Því trúði ég vel því í litlu stofunni hans með tveim slitnum stólum, glumdi danskt rapp. Hvílík mússík ! Síðan mundaði hann skærin yfir kollinum á mér og sagði með glampa í augum: Noh,hvar ætli sé nú best að byrja.
Um það bil á miðju Strikinu eru salerni sem bera af öðrum slíkum stöðum fyrir sakir snyrtimennsku og hreinlætis. Gjald kr. 2. Ég varð svo glaður þegar ég fékk að nota svo tandurhreint og gljáfægt klósett í allri mannmergðinni, að ég gaf verðinum aukalega sænskan tíkall sem ég fann í vasa mínum. Af gömlum vana sagði ég þó deili á mér, því í Kaupmannahöfn er skárra að vera íslenskur en sænskur. Þá lifnaði yfir verðinum og í ljós kom að umsvif íslenskra viðskiptagarpa í okkar fornu höfuðborg höfðu ekki farið fram hjá honum, þvert á móti virtist hann bara vel upplýstur í þeim efnum. Það var ekki laust við að ég fylltist stolti; þjóðernið á ég þó sameiginlegt með þessum höfðingjum. Ég sagði því verðinum að þar sem við Íslendingar hefðum nú keypt bæði Magasínið og Illums væri ekki ólíklegt að við myndum bráðlega vilja eignast klósettin á Strikinu líka. Þessu ágæta snyrtimenni virtist ekki lítast neitt illa á þá ráðagerð. Hann sagðist hafa heyrt að Íslendingar væru góðir vinnuveitendur og ekki smámunasamir. Það fór svo vel á með okkur að ég lofaði að leggja inn gott orð fyrir hann í þá veru að hann mætti ljúka starfsævinni þarna neðanjarðar en yrði ekki hagrætt upp á yfirborðið þótt Baugsveldið tæki við stjórn klósettanna. Það ætti nú að geta gengið eftir, því þetta er eldri maður með fá ár til eftirlauna. Já, það getur verið skemmtilegt að taka ókunnugt fólk tali.