05.03.2007
Atlaga landeigenda að Þjóðlendulögunum.
Að skera úr um mörk á milli eignarlanda og almenninga eins og nú er gert á grundvelli Þjóðlendulaga, er löngu tímabær aðgerð. Þjóðin öll á og hefur alltaf átt almenninga - svæðin utan eignarlanda. Þannig var það í gamla bændasamfélaginu öndvert við það sem sumir halda fram í dag.Um rétt allra landsmanna í þessu efni vitna ljóslega hinar fornu lögbækur - Jónsbók og Grágás.
Hinar miklu breytingar á gerð þjóðfélagsins sem urðu á 20. öld, þegar fólkið safnaðist úr sveitunum í þéttbýlin, svipta okkur- fólkið á mölinni- ekki réttinum til landsins utan eignarlanda. Þar eiga landsmenn allir jafnan rétt. Langt yfir 90% þjóðarinnar er landlaust fólk í þéttbýli, landeigendur eru einungis lítið brot landsmanna. Samtök skotveiðimanna, SKOTVÍS hafa oft á undanförnum árum þurft að beita sér til varnar almannarétti. Við höfnum enn sem fyrr tilraunum hinna örfáu landeigenda til að slá eign sinni á almenninga - braska með þá og selja okkur þar aðgang eins og komið hefur fram að marga þeirra dreymir nú um að gera.
Oftrú á þinglýsingum fyrri tíma
Landeigendur hafa talað hátt um þinglýsingar undanfarið. En þinglýsingar eru ekki einhlýtar. Það má m.a. sjá af dómi Hæstaréttar um Nýjabæjarafrétt. Í því máli og fleirum hefur Hæstiréttur hafnað gildi þinglýsinga einfaldlega vegna þess að rétturinn hefur þá komist að þeirri niðurstöðu að landi hafi verið þinglýst án þess að eignamörk þess hafi verið könnuð til hlýtar. Af marklausum þinglýsingum má greinilega sjá tilhneigingu til þess að ganga á almenninga og þóknast þannig kröfum um eignarrétt einstaklinga á landi.
Vönduð vinna
Starf Þjóðlendunefndar er einmitt til þess unnið að komist verði að réttum og endanlegum niðurstöðum um mörk milli eignarlanda og almenninga. Þess vegna þarf að lýsa kröfum og kröfur eru ekki sama og niðurstaða, þótt sumir landeigendur tali nú þannig til þess að villa fólki sýn.
Óbyggðanefnd - skipuð mönnum með hæfi dómara - metur kröfurnar og sker úr um réttmæti þeirra. Úrskurðirnir byggjast á tæmandi gagnasöfnun og gríðarlegri heimildavinnu sem er í sjálfu sér ómetanleg.
Síðan geta landeigendur farið með málin fyrir dómstóla; Héraðsdóm, Hæstarétt og jafnvel Evrópudómstólinn. Málskostnaður er þá greiddur af almannafé því landeigandi getur fengið gjafsókn til þess að verja rétt sinn án tillits til efnahags hans, eins og þó gildir almennt um leyfi til gjafsókna.
Þetta er gott fyrirkomulag því það má hvergi vera vafi á að einstaklingar haldi rétti sínum gagnvart ríkinu. Öll þessi mikla og vandaða vinna Þjóðlendunefndar,Óbyggðanefndar og dómskerfisins stefnir að réttum og sanngjörnum niðurstöðum. Þannig hefir frá upphafi verið unnið á grundvelli laganna um Þjóðlendur: fullkomlega faglega með loka niðurstöðu frá Hæstarétti.
Nú kann að verða breyting á. Svo er að sjá að samtökum landeigenda hafi með frekju og offorsi tekist að rugla svo einhverja stjórnmálamenn að farið er að tala um að breyta því verklagi sem viðgengist hefur til þessa. Jafnvel að breyta sjálfum Þjóðlendulögunum.
,, Með lögum skal land byggja " stendur þar. Og þá er átt við ein lög í landinu. Þetta er svo sjálfsagt að því verður ekki að óreyndu trúað að nú verði breytt um vinnulag í þjóðlendumálum. Hvernig ættu stjórnmálamenn að verja slíkan hringlanda fyrir þjóðinni ? Og hvað ættu þeir að segja við þá landeigendur sem sæta úrskurðum og dómum sem þegar hafa gengið í þeirra málum ? Breyting nú myndi setja alla framkvæmd Þjóðlendulaganna í uppnám. Og það er væntanlega það sem harðsvíruð klíka eignamanna í samtökum landeigenda stefnir nú að. Í þessu máli þarf Alþingi svo sannarlega að gæta að virðingu sinni.
Ábyrgðarlaus málflutningur
Ofstæki og blekkingavaðall sumra landeigenda undanfarið hefur verið með ólíkindum. Þeir hafa hiklaust talað gegn betri vitund og m.a. kallað kröfugerð Þjóðlendunefndar eignaupptöku, rétt eins og Þjóðlendunefnd hirði eignir af fólki án frekari umsvifa. Þeir hafa jafnframt gætt þess að minnast ekki orði á hlutverk dómskerfisins í málinu. Nú hefur Framsóknarflokkurinn tekið málið að sér en í frétt af nýafstöðnu flokksþingi kemur fram að ráðherrum flokksins hefur verið falið að ræða málið við samstarfsflokkinn með það fyrir augum að slakað verði á kröfugerð Þjóðlendunefndar og samið um framkvæmdina. Þannig reyna hinir ofstækisfyllstu landeigendur nú með fulltyngi Framsóknarflokksins að fá sérstaka meðferð - utan við lög og rétt. Nú ríður á að fjármálaráherrann haldi fast á rétti almennings í landinu.
Eignarrétturinn er vissulega heilagur grundvallarréttur í samfélagi okkar. SKOTVÍS hefur að sjálfsögðu alltaf virt rétt landeigenda, á því verður engin breyting. En við krefjumst þess að allir, þ.m.t. samtök landeigenda, uni lögum og lögformlegum aðferðum og virði almannaréttinn og dómstóla landsins.
03.03.2007
Tveir ,,góðir" tjá sig í Fréttablaðinu í gær: Haft er eftir framkvæmdastjóra ASÍ að hækkun lánshlutfalls húsnæðislána sé ,, mjög óráðleg" og formaður V.G., Steingrímur Sigfússon, hælir sér af baráttu sinni gegn skattalækkunum til almennings.
Um framkvæmdastjóra ASÍ er það að segja að nánast í hvert sinn sem hann talar opinberlega í nafni samtakanna, þá velti ég fyrir mér réttmæti þess að við launþegar höldum ASÍ-bákninu uppi, slík er fjarlægðin orðin frá verkstæðisgólfinu til sérfræðinganna hjá ASÍ sem halda víst að þeir hafi verið beðnir um að sitja á ríkiskassanum.
Engan þarf að undra þótt Steingrímur vilji halda uppi háum sköttum. Forræðishyggjan hefur verið grunnstefið í öllu hans mikla málæði í Þinginu árum saman. Dýr eru ráð slíkra manna og kosta endalaust aukið skattfé. Eða hafa menn gleymt framgöngu Steingríms sem landbúnaðarráðherra? Bægslagangur Steingríms og hávaði í Þinginu hefur hvorki aukið hag almennings í landinu né virðingu Alþingis.
Það má gera ráð fyrir að þessir tveir áhrifamenn sem hér hafa verið nefndir, séu sammála um að öruggast sé að við höldum áfram að greiða hér okurvexti, ekkert vit sé í að afnema verðtryggingu af lánum okkar, lækkun matarverðs sé stórvarasöm og að yfirleitt þurfi að gæta þess að almenningur hafi ekki of mikið fé milli handa.
Ég leyfi mér að ætla þeim þessa afstöðu, því hún er rökrétt niðurstaða af spekimálum þeirra um forsendur fyrir stöðugleika og viðunandi verðbólgustigi í landinu.
Haukur Brynjólfsson.