18.04.2007
18.04.2007
14.04.2007
09.04.2007
08.04.2007
08.04.2007
Hádegisfundur
Á hádegisfundi Samfylkingarinnar á Sólon á miðvikudaginn spurði ég hvort þingflokkurinn myndi beita sér fyrir afnámi verðtrygginga á fjárskuldbindingar, t.d í hugsanlegum samningum um stjórnarsamstarf að loknum kosningum .Tilefni spurningarinnar var m.a. það sem formaðurinn lýsti í ávarpi sínu; að heimilin í landinu eru þjökuð af háum vöxtum og samspili verðtrygginga og verðbólgu. Ingibjörg taldi ekki ráðlegt að afnema verðtrygginguna nú og færði fyrir því rök. Þó eru væntanlega flestir sammála um að það sé ekki eðlilegt ástand til langframa að saman fari háir vextir og verðtrygging. Þegar verðtrygging var felld niður af launum en haldið á fjárskuldbindingum, var talað um það sem tímabundið ástand meðan verið væri að ná tökum á verðbólgunni. Það tímabundna ástand hefur nú varað á þriðja áratug. Þó höfum við, miðað við verðbólgustig þá og verðbólgustig nú - fyrir löngu náð tökum á verðbólgunni.
Þegar skammt er til kosninga er ekki heppilegt að brjóta stór mál til mergjar innan flokksins. Slíkt gerist ekki án deilna og þótt deilur séu oftast ekkert annað en eðlilegur þáttur í samræðuferli og leit að sameiginlegri niðurstöðu, þá bjóða þær líka upp á óvinafagnað. Nú verður keyrt á stefnuskrár næstu vikurnar.
Ég sting hinsvegar upp á því sem verkefni þegar um hægist eftir kosningar, að haldið verði málþing um efnahagsmál og fjármál heimilanna. Fagmenn verði fengnir til að fjalla um þessi efni. Markmiðið verði að leita leiða úr þeirri gislingu sem vaxtaokur og verðtrygging hafa haldið okkur í - allt of lengi.