Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

25.01.2008

Mótmæli - gömul dagbókarfærsla.

Atburðir síðustu daga -nær og fjær - hafa leitt huga minn að dagbókarfærslu frá því í  nóvember 2006. Hún birtist hér, að gefnu tilefni.

Í gær tók ég þátt í mótmælasamkomu framan við Utanríkisráðuneytið. Tilefnið var heimsókn sendiherra Ísraels hingað og nýustu voðaverk Ísraelshers í Palestínu er tugir fólks var limlest og drepið í einni hrinu snemma morguns. Þennan viðbjóð, sem engin orð ná yfir, kallar Ísraelsstjórn mistök og biðst afsökunar ,,... fyrirgefðu, fyrirgefðu, / anginn litli, anginn minn. /  Ég ætlaði að skjóta hann pabba þinn.''  (Slysaskot í Palestínu. Kristján frá Djúpalæk um miðja síðust öld)

Í upphafi virtust vera þarna fleiri fjölmiðlamenn en mótmælendur. Úr því rættist þó fljótt og þátttakan varð ágæt. Ég fékk það hlutverk að strekkja út borða á móti formanni félags Múslíma á Íslandi, á borðanum stóð: ,, Stöðvið blóðbaðið ''. Það er vissulega ástæða til að halda þeirri kröfu á lofti. Í hópnum mátti sjá ýmis gömul brýni en líklega vorum við Birna Þórðardóttir gamalreyndust; ég áttaði mig á að nú eru liðin ein 40 ár síðan við Birna vorum fyrst í sömu kröfugöngu og mótmælum. Þó þekkjumst við ekki og höfum varla talast við. En í áranna rás höfum við marga gönguna gengið og stöðuna staðið þótt framganga okkar hafi verið með ólíkum hætti. Birna hefur sem kunnugt er látið mjög til sín taka í mótmælum og jafnvel átt í handalögmálum við lögreglumenn og aðra valdsmenn. Ég hef hinsvegar haft mig lítið í frammi og gætt þess að stíga ekki á tær löggæslumanna, enda tel ég vega þyngst að mótmæli borgara séu virðuleg, því eigi fólkið að vera hljóðlát og alvarlegt á slíkum stundum.

Sveinn Rúnar flutti ágætt ávarp og ég heyrði mjög hnitmiðað svar hans við spurningu fréttamanns þar sem hann lagði áherslu á það hvernig Ísraelsstjórn eyðileggur afkomumöguleika almennings í Palestínu með því að hefta ferðafrelsi fólks í landinu, einangra fólkið og spilla ræktarlöndum þess.

Mér finnst að það sé tvíþætt ástæða fyrir því að maður fer út á götu til að mótmæla: Réttlætiskennd manns er svo ofboðið að maður verður að láta það koma fram. Svo  er það vonin um að maður geri e.t.v. ofurlítið gagn með því að fylla flokk hugsandi fólks, sem vonandi verði svo margt saman komið að ódæðismennirnir taki eftir því.

Hópurinn við Utanríkisráðuneytið í gær var stærri en svo að málpípa Ísraelshers treysti sér til að ganga í gegn um hann. Hún smaug út um bakdyrnar og hvarf á braut við engan sóma.

22.01.2008

Sérkennilegur borgarstjóri

 

Sérkennileg eru helstu áherslumál hins nýja borgarstjóra í Reykajvík. Hann vill hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýri og hann vill að húskumbaldarnir, spítnabrakið við Laugaveg 4 - 6, verði friðað. Þetta eru sannarlega einkennileg mál til að byggja á samstarf um nýjan meirihluta í borginni. Meirihluti borgarbúa hefur samþykkt að taka svæðið í Vatnsmýrinni til annarra og hagkvæmari nota en að leggja það undir flugvöll. Borgarstjórinn skipar sér þannig í hóp með þeim þingmönnum af landsbyggðinni sem vilja með yfirgangi og frekju halda flugvellinum áfram í Vatnsmýrinni, hvað sem Reykvíkingar segja um það mál.

Um hitt málið, húsin við Laugaveg 4 - 6, er það að segja að 3 af hverjum  4 aðspurðum vilja rífa kofana og byggja ný hús á lóðunum. En ekki borgarstjórinn, Ólafur F, hann óttast nútímann, flottan arkitektúr, ný hús úr nýjum efnum. Hann er svosem ekki einn um þann ótta, það er viss hópur fólks sem alltaf virðist fá flog ef til stendur að endurnýja byggð í gömlu Reykajvík. Það sorglega er að þessu liði tekst furðu oft að fá sínu framgengt á kostnað meirihlutans og nauðga þannig lýðræðinu.

Það verður sannarlega fróðlegt að sjá hverja gæfu Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur af þessum sékennilega borgarstjóra sínum.

08.01.2008

Húsafriðunarnefnd ríkisins.,, Ekki meir, ekki meir´´.




Mikið lifandisskelfingarósköp er hún ömurleg minnimáttakendin sem grípur um sig hjá ákveðnum hópi í þjóðfélaginu nánast í hvert skipti sem til stendur að endurnýja byggingar í gömlu Reykjavík Ég leyfi mér að kalla þetta minnimáttarkennd því svo er að sjá sem að þetta baráttulið gegn endurnýjun, þori ekki að sjá ný hús en vilji fyrir alla muni ríghalda í gamla tímann. Mér finnst það alveg með ólíkindum að við skulum nú standa frammi fyrir því að friða eigi kumbaldana neðst við Laugaveginn. Látum svo vera ef um upprunalegar byggingar væri að ræða, en svo er að sjálfsögðu ekki. Þessum húsum er greinilega búið að breyta hvað eftir annað bæði hvað útlit varðar og efni. Sem skattgreiðandi frábið ég mér kostnað af friðun þessa spítnabraks enda tel ég þá aðgerð fáránlega vitleysu.
Til vara krefst ég þess að unnendur fortíðarinnar og rottusmoginna hjalla greiði sjálfir  kostnaðinn  af slíku rugli.

06.01.2008

Hugleiðingar um hreindýraveiðar og veiðisiðferði

Tilefni þessara sundurlausu hugleiðinga er erindi héraðsdýralæknis  A-Skaftafellssýslu til   Ráðgjafarnefndar vegna tveggja ,,illa skotin hreindýra" sem læknirinn fékk til skoðunar.

Dýralæknirinn kvaddi til lögreglu sem skoðaði skrokkana og gerði skýrslu um málið. Í öðru tilvikinu hafði skot lent aftarlega í rifjahylki hreindýrs. Það taldi dýralæknirinn ,,mjög athugavert". Í lögregluskýrslu er þetta kallað bógskot ,,nokkru aftar en ætla má að sé æskilegur staður til að staðsetja skot til aflífunar á hreindýri.." Í hinu tilfellinu var um að ræða skotsár á læri hreindýrs. Væntanlega hefur það skot ekki drepið dýrið það hljóta því að vera ummerki eftir banaskot á skrokknum þótt þess sé ekki getið í erindi dýralæknisins eða lögregluskýrslu.

Að þessu samanlögðu spyr dýralæknirinn hvort hægt sé að kalla þetta löglega veidd dýr.

Til að svara þeirri spurningu finnst mér rétt að benda á mismuninn á aflífun dýrs í sláturhúsi annarsvegar og veiðar hinsvegar. Hér er um gjörólíkar aðstæður að ræða. Krafan um fullkomið öryggi á við í sláturhúsinu en getur aldrei átt við um veiðar. Auðvitað þurfa veiðimenn stöðugt að hafa í huga hvort þeir séu í nægjanlegri þjálfun til að stunda veiðar. Til þess að skjóta af öryggi þarf æfingu þetta á ekki síst við þegar skotið er með riffli. Menn þurfa því að skjóta í mark milli veiðiferða. En þá verður að benda á að margir þéttbýlisbúar eiga í vandræðum með að komast að til skotæfinga með stórum rifflum. Það vantar riffilbrautir á fleiri stöðum. Úr því þurfum við að bæta.

Þá ætti það að vera föst regla að veiðimenn sýni fram á viðunandi skothæfni í upphafi hreindýraveiða. Hugsanlegt er einnig að setja leiðbeinandi reglu um afstöðu bráðarinnar þegar skotið er á hreindýr. Besta afstaða væri þá þegar skotlínan myndar 90° horn við hrygglengju dýrsins. Möguleikinn á vel heppnuðu skoti minnkar svo eftir því sem frávikið frá þessari bestu afstöðu eykst. Fyrirmyndin er sænska elgskivan eða skothringurinn. Gert er ráð fyrir bógskoti.

En margt er breytilegt á veiðum s.s. landslag, veður og birta. Þá skiptir ástand dýranna dýranna máli t.d. hvort þau hafa orðið fyrir styggð. Það er útilokað að gera ráð fyrir að allir þættir sem máli skipta verði alltaf eins og best verður á kosið og skotið þar með 100% lukkað. Skot nokkuð aftarlega í rifjahylki hreindýrs ætti ekki að vera vandamál sé um að ræða hæfilega kúlu. Skot í löpp hlýtur hinsvegar að teljast sjaldgæft óhapp eins og menn vita og bent er á í lögregluskýrslu.

Veiðikúla þarf að hæfa veiðidýrinu sem ætlunin er að fella. Í því felst að orka kúlunnar sé nægjanleg til að valda losti og skyndilegum dauða bráðarinnar. Gerð kúlunnar skiptir máli, stöðvist hún í veiðidýrinu hefur skrokkur þess tekið upp alla hreyfiorku kúlunnar. Minna má á, að við setningu veiðilaganna nr.64 1994, mælti SKOTVÍS gegn því að leyft yrði að nota cal.243 til hreindýraveiða. Fulltrúi félagsins taldi þessa kúlu ekki hæfa til veiða á svo stórum dýrum. Ekki var farið að þessu ráði og minnsta leyfilega caliber til hreindýraveiða er nú 243. Raunveruleg ástæðan fyrir þessari ákvörðun er væntanlega sú að margir veiðimenn í hreindýrasveitum fyrir austan áttu og eiga enn vopn af þeirri stærð - sem er reyndar tilvalin til veiða á t.d. ref og gæs.

Ég álít að margt í framkvæmd hreindýraveiða okkar megi að taka til endurskoðunar og jafnvel breyta. Það þarf að minnka flýtinn og þar með stressið við þessar veiðar. Það er dýr hver dagurinn með leiðsögumanni og það skapar vissa pressu. Menn ganga ekki um veiðisvæðið í rólegheitum og leita að bráð. Leiðsögumennirnir stjórna veiðunum algjörlega. Þeir hafa samband sín á milli og vita yfirleitt hvar dýr er að finna. Síðan er keyrt á rétta staðinn, veiðimaðurinn ,,kemst í hjörðina", fellir sitt dýr og lýkur veiðunum á einum degi þegar vel tekst til. Þessi hraði hentar einnig leiðsögumanninum enda er hann yfirleitt farinn til veiða næsta dag með annan veiðimann sem beðið hefur í röðinni.

Allt ber þetta vott um dugnað og hæfni leiðsögumannanna, sem ekki er ber að lasta. En ég tel að reyndir veiðimenn, sem svo kjósa, ættu að hafa meira frelsi við hreindýraveiðar en nú tíðkast. Þeir ættu að geta gengið til veiðanna án þess að hafa leiðsögumann stöðugt yfir sér eins og nú er skylda. Hlutverk leiðsögumannsins ætti þá einkum að vera upplýsingagjöf í upphafi veiðiferðar og síðan aðstoð eftir óskum veiðimanns. Eftirlit gæti verið tilviljanakennt þannig að veiðimenn vissu af leiðsögumönnum á svæðinu og gætu átt von á þeim hvar sem væri. Ljóst er að slíkt fyrirkomulag hentaði ekki á öllum svæðum, t.d. ekki á Fljótsdalsheiði, þar sem mest gengur á. En það væri hugsanlegt að gera þessa tilraun á vissum hlutum svæðanna 6 - 8 svo dæmi séu nefnd. 
 Óvanir veiðimenn, og veiðimenn sem þess óska, væru eftir sem áður stöðugt í fylgd leiðsögumanna.

Sú skylda hvílir á skotveiðimönnum að aflífa bráð sína svo skjótt sem verða má. Við viljum forðast að dýrið verði mjög óttaslegið eða þurfi að þola þjáningar. Ástæða ótta getur verið langur eltingarleikur. Kvölum getur valdið misheppnað skot veiðimanns eða árás rándýrs, sem illa ræður við bráð sína. Þegar þetta er hugleitt er gott að hafa í huga að enginn, hvorki maður né dýr, hefur fengið nokkurt loforð um að hverfa af þessum heimi þjáningalaust. Það getur verið fróðlegt að horfa á svokallaða náttúrulífsþætti en í slíkum þáttum má stundum sjá veiðar rándýra úti í náttúrunni. Samkvæmt okkar skilningi eru þær aðfarir mjög grimmilegar og hljóta að valda bráðinni ótta og kvölum. Aðferðir veiðimannsins eru með allt öðrum hætti enda mannúðlegar. Það er sjálfsögð skylda veiðimanns að halda sér í þjálfun, nota viðeigandi vopn og beita yfirvegun og samviskusemi við veiðarnar.

Veiðiminning í lokin: Á fögrum októbermorgni lágum við tveir félagar fyrir gæs við kartöflugarð fyrir austan fjall. Þegar albjart var orðið leyndumst við í myndarlegu njólastóði sem orðið var brúnt undir vetur. Við höfðum þá fengið nokkrar gæsir, þær höfðu komið strjált fáar í einu og við vissum að enginn fugl hafði sloppið frá okkur með högl í skrokknum. Ekki vorum við einir á svæðinu því öðru hverju heyrðust skothvellir úr nokkurri fjarlægð. Eftir slíka hrinu sáum við hvar ein gæs flaug hátt í lofti all langt í burtu. Hún hafði greinilega orðið viðskila við sinn hóp og kallaði stöðugt. Þegar við svöruðum  snarbeygði hún, stefndi beint á gervigæsirnar okkar og lækkaði sig hiklaust. Á réttu augnabliki brá félagi minn upp byssunni, skotið small og gæsin féll steindauð í kartöflugarðinn án þess að frá henni heyrðist eitt hræðslugarg. Þetta setti punktinn við gæsaveiðina það árið, við þurftum ekki að ræða það, tókum bara saman og vildum engu bæta við veiðiupplifun morgunsins.

Við ókum svo heim að bænum til að gefa skýrslu og kveðja. Þegar við stigum út úr bílnum á hlaðinu heyrðum við dynki mikla frá gripahúsunum. Er við komum fyrir fjóshornið blasti við okkur skýringin á hávaðanum. Þar var bóndi við annan mann að basla við að koma nautgripum upp á vörubíl. Þetta kostaði mikið tos og puð. Nautin streittust við með uppglennt augu, misstu fótanna á hálli skábrautinni blásandi og slefandi, en ofan af pallinum heyrðist hark og stöku baul. Þessi dýr voru greinilega mjög hrædd. Sennilega hafa einhver þeirra líka verið meidd eftir byltur og pústra. Framundan var enn ný reynsla; nærri klukkustundar akstur í lokuðum bíl, síðan bið í sláturhúsinu þar sem þau hafa vonandi ekki skynjað blóð og dauða, heldur fallið grunlaus. En kjötið verður ekki til í búðinni. Til þess að fá kjöt þarf að fella dýr. Svo furðulegt sem það nú er þarf öðru hverju að minna fólk á þá staðreynd.

Ég er sáttur við þær skyldur sem ég hef sem skotveiðimaður og reyni að rísa undir þeim. En ég er ekki sáttur við þann áróður og það vanþekkingarbull sem látlaust er haldið uppi gegn veiðum og veiðimönnum af einhverjum sjálfútnefndum góðmennum. Þetta lið fimbulfambar þekkingarlaust um drápsfýsn og ómannúðlegar veiðiaðferðir - og velur sér svo steik úr kjötborðinu. Langverst finnst mér þó sú misvel dulbúna andúð á veiðum sem stöðugt er sáð út og ræktuð af ýmsum fjölmiðlum, félagasamtökum og jafnvel opinberum aðilum.

Stærstu vandamálin í dýravernd á Íslandi er ekki að finna á vettvangi skotveiða. Það ættu ábyrgir aðilar að skoða vandlega og líta sér nær þar sem það á við. Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um að nautin, sem við félagarnir sáum dregin upp á bílinn forðum, hefðu verið aflífuð á mannúðlegri hátt úti í haganum með bógskoti af hæfilegu caliberi jafnvel þótt kúla hefði lent nokkru aftar í rifjahylki en æskilegast gæti talist.

Þessar hugleiðingar voru upphafleg settar á blað í nóvember 1998 og lagðar fram í Ráðgjafarnefnd um villt dýr,en höfundur var fulltrúi skotveiðimanna í þeirri nefnd. Af gefnu tilefni finnst mér ástæða til að birta þetta efni nú. Ég set því pistilinn á síðuna mína endurskoðaðan og nokkuð lagfærðan.


05.01.2008

Dýr kaffisopi á nýju ári



Hjá Bakarameistaranum í Glæsibæ, þar sem ég fékk mér stundum kaffisopa og köku,virðast menn ætla að taka nýja árið með einskonar álagningaráhlaupi. Verð á veitingum hefur verið snarhækkað, kaffibollinn er kominn í 220 krónur og hnetustykki, sem reyndar nefnist nú hnetubaka, kostar 190 krónur.

Það er þó ljóst að í gær missti fyrirtækið a.m.k. einn viðskiptavin vegna meints okurs.

Reyndar minnir þetta mig á kostulegt atvik sem henti mig í fyrravetur. Ég skrapp þá sem oftar í verslun nærri vinnustað mínum til þess að kaupa kex  til að hafa með kaffinu. Stjórnendur þessarar verslunar virðast leggja á það áherslu að hafa barnungt starfsfólk á sínum vegum.  Er ég tók kexpakkann úr hillunni sá ég að búið var að hækka verðið á honum ótæpilega. Ég undraðist hækkunina og hafði orð á því við starfstúlku sem eitthvað var að bauka í kexrekkanum. Barnið leit á mig bláum augum og svaraði af einlægni: ,,við erum að hækka vörurnar fyrir VSK-lækkunina" !