28.11.2011
Fylgdist með opnum fundi í Efnahags-og viðskiptanefnd í morgun. Stórskemmtilegt; seðlabankastjórinn virkaði alveg konunglega hrokafullur þar sem hann sat fyrir svörum nefndarmanna með aðstoðarmenn á báðar hendur sem hann kvaddi til andsvara með handapati eftir þörfum. Og það var hreinlega eins og sumir nefndarmanna væru dálítið óöruggir gagnvart hinni vísu þrenningu úr Svörtuloftum. Þráinn Bertelsson var einstaklega prúður og óframfærinn á þessum fundi og þakkaði margfaldlega fyrir allt sem honum var sagt. Margrét Tryggvadóttir spurði seðlabankastjóra m.a. hve langan tíma hann teldi að það tæki okkur að uppfylla Maastricht-viðmið ef til þess kæmi. Ekki fékk hún svar við spurningunni og lét vera að ítreka hana. Það var eins og þingmanninn langaði ekkert til að hjóla aftur í lærdómshroka seðlabankastjórans. Viðbrögð við hvössum spurningum Brikis Jóns og Guðlaugs Þórs leiddu einungis huga manns að frasanum um vatn og gæs.
Ekki held ég að fundurinn hafi aukið mikið við vitneskju þeirra sem á annað borð fylgjast með þjóðmálaumræðunni. En hann hafði ótvírætt skemmtigildi og ég gladdist við loforð formanns nefndarinnar um annan slíkan snemma á nýju ári.
01.11.2011