14.04.2012
06.04.2012
Um hádegisbilið,Laugardaginn 17. mars, ók ég í land úr Norrænu í Hirtshals, heldur gráleitum bæ nyrst á Jótlandi. Brunaði svo suður Danmörku allt til Kaupmannahafnar á leið minni til Ekeby í Svíþjóð. Visakortið mitt ýmist virkaði eða því var hafnað þrátt fyrir innistæðu og rétt pin númer. Sú varð raunin þegar kom að því að greiða brúartollinn Svíþjóðarmegin Eyrarsunds, þar var kortinu mínu þverlega ,,Avvisad". Ekki lét ég mér bregða við það en dró upp varasjóðinn, færeyska hundraðkalla, sem ég stakk í lúkurnar á gjaldkeranum, og hlakkaði nú mjög til að sleppa í gegn um hliðið og bruna framhjá Malmö, norður E20 veginn, alla leið á áfangastað. En þar var hugurinn kominn framm úr aðstæðunum, því gjaldkerinn vildi ekkert með færeyskt fé hafa, en spurði mig ítrekað hvað þetta væri fyrir peninga. Tók nokkra stund að fá hann til að muna að Færeyjar væru til á jarðarkúlunni og heyrðu undir sama kóngaskekkti og Danmörk. Lengra varð honum ekki þokað í átt að viðurkenningu á færeysku seðlunum, enda benti hann réttilega á að rækilega er tekið fram á skiltum við gjaldhliðin að þar sé einungis tekið við dönskum peningum og sænskum, auk korta. Tók hann nú upp símann til að ráfæra sig við yfirmann sinn. Sá kom óðara með lausn á vandanum: ég skyldi snúa við til Köben og skipta þar þessum seðlum í viðurkennda peniga, sem ég kæmi svo með aftur til að greiða brúartollinn. Ég sá strax að þetta mundi vera Salamonsdómur sem ekki yrði mótmælt, og brenndi því til baka yfir til Kastrup. Þar höfðu víxlarar þegar rennt stálgrindum fyrir afgreiðslubása sína og voru sjálfsagt farnir heim að sofa.
Þótt ég hefði þannig ekið Eyrarsundsbrúna í tvígang án þess að greiða fyrir, var ég ekki vel hress með stöðuna. Svo oft hafði kortinu mínu verið hafnað að ég þorði ekki framar að stinga því í hraðbanka af ótta við að það hyrfi þá endanlega. Án kortsins gat ég hinsvegar ekki greitt bæði brúartoll og bensin til að ljúka ferðinni. Ég beið því morguns, skipti þá færeysku seðlunum í nothæft fé, lagði bílnum í leigustæði, keypti lestarmiða til Helsingborgar og tók þaðan strætó til Ekeby.
Þar urðu fagnaðarfundir enda var fólkið mitt orðið verulaga hrætt um mig. Ég gat nefnilega ekki getað látið vita af mér meðan á þessu veseni stóð. Þó hafði ég keypt gsm-,,startpakka" frá Telia í Danmörku sem átti strax að vera virkur. Svo reyndist ekki vera heldur komu meldingar um að viðkomandi númer sem ég hringdi væri ekki í notkun eða ekki virkt. Sjálfur fjandinn má vera í viðskiptum við Telia í minn stað framvegis. Myntsímar eru orðnir fágætir á þessum slóðum, ég fann einn á Kastrup en hann var bilaður, eða virkaði hann bara innanlands. Allt þetta vesen var auðvitað bara sjáfum mér að kenna og skorti á undirbúningi og fyrirhyggju. Ég hafði ekki tékkað á að kortið mitt væri opið fyrir úttektir erlendis og svo var náttúrlega út í hött að vera ekki með virkan gemsa.
Næst ætla ég ekki að keyra suður Danmörku en fara heldur til Fredrikshavn ( innan við 100 km frá Hirtshals) og taka þaðan ferju yfir til Gautaborgar. Þaðan eru einungis um 220 km akstur suður til Ekeby.