Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

28.08.2012

Nýtt Ísland

Af gefni tilefni:

   Ég held að með kröfunni um nýtt Ísland, sem hæst bar í byrjun árs 2009, hafi fólk fyrst og fremst átt við að stjórnvöld ættu að leggja af ósiði fjórflokksins. Hvaða ósiði ? Jú, þeir komast fyrir í einu orði sem er spilling. Íslenskt samfélag var og er gegnsýrt af spillingu sem á upphaf í  stjórnmálaflokkunum og seytlar þaðan um æðar þjóðfélagsins. Er það eitthvað að breytast? Ég sé engin merki þess. Er ,, allt uppi á borðinu" eins og fólkið krafðist? Fráleitt. Hugtökin spillingu og ,,allt uppði á borðinu" mætti hluta sundur og skrifa langt mál um hvort fyrir sig, Ég sé enga ástæðu til þess, ég held að staðreyndirnar blasi við okkur öllum. Nýtt Ísland væri andstæða þessa ástands.


26.08.2012

Flugdólgar

 

  Enn er sagt frá ólátum drukkins manns í flugvél. Það minnir mig á ferð sem ég fór með Fokker 27 frá Egilsstöðum til Akureyrar árið 1966. Þá var nýlega búið að taka upp það fyrirkomulag að farþegar fengu brottfararspjald  til að afhenda flugfreyju við inngöngu í vélina. Fyrir utan mig, rafvirkjagreyið, samanstóð farþegahópurinn í þetta sinn af sauðdrukknum stórmennum, sem voru hluti áhafna tveggja þekktra síldveiðiskipa. Í undirbúningi ferðar bar mest á perufullum aflaskipstjóra, stórfægum, sem tók ekki í mál að taka við einhverju andskotans spjaldi til að komast í flugvélina.Hann vildi fá að greiða flugfreyjunni fargjaldið um leið og hann gengi um borð.Þetta var látið eftir hinum fræga manni og hann rétti flugfreyjunn þúsundkall við landganginn og sagði að þetta passaði, en farið kostaði þá rúmlega 800 kr.
   Svo komu menn sér fyrir í sætunum, flugmenn ræstu hreyflana og aflaskipstjórinn stórfrægi lét handtösku sína vaða af hendi aftur fyrir sig og beint í fangið á þeim sem fyrir aftan hann sat, hverjum hann skipaði að passa fyrir sig töskuna. En sá var nú enginn smákalli heldur og ekki af sama skipi, og brást hinn versti við. Einhverjir menn voru þó þarna með viti sem gengu á milli. Þeir máttu reynda standa vaktina alla leið til Akureyrar, því hvað eftir annað lá við að upp úr syði og til slagsmála kæmi í vélinni. 
  Flugfreyjan hélt sér til hlés og sást ekki fyrr en gengið var frá borði sem líklega var skynsamlegt.
  Ekki var sagt frá þessu ferðalagi í blöðum  þess tíma, og ég held að ekki hafi verið búið að finna upp heitið  flugdólgur. En eftirá að hyggja hefði líklega hefði verið eðlilegast að skilja stórmennin eftir á Egilsstöðum en fljúga bara með rafvirkjann til Akureyrar.

 

02.08.2012

Salt í grautinn

Upp með húmorinn. Hallur frændi okkar, Haukur minn, er ómissandi, hann er svo skemmtilegur. Hefurðu séð hann í  ,, Heimastjórninni" hjá Ingva Hrafni ? Þarna sitja yfirleitt við borð hin mestu íhaldsljós, Guðlaugur Þór gjarnan fyrir endanum, þéttur í sæti og margstyrktur. Allir þátttakendur eru svo innilega sammála að umræðan verður oft vandræðalega eintóna, helst að það slakni á leiðindunum þegar Jón Kristinn reynir að ná stjórninni á þættinum af Ingva Hrafni sem er í sífelldum útúrdúrum og loftköstum: versti spyrjandi allra tíma. En þegar Hallur frændi brýst svo inn í umræðuna, alvarlegur og fastmæltur, til þess að slá botn í vangaveltur kjánanna og segja það sem þarf að segja, þá er hann hreint eins og saltið í grautinn. Og hver vill ósaltaðan graut?

 Hallur hefir meira að segja orðið Starra heitnum í Garði tilefni til að gera bráðsmellna vísu sem auðvitað væri ekki til ef Hallur frændi væri ekki til. Þannig var að fyrir margt löngu háðu Jóhann Hjartarson og Kortsnoj skákeinvígi.Teflt var í Kanada og fékk Jóhann með sér fylgdarlið við hæfi, t.d. var Friðrik Ólafsson stórmeistari þar helsti ráðgjafinn. En Hallur frændi hafði líka sitt að segja enda skákmaður góður, en var nú með í för sem sérlegur fréttaflytjandi liðsins.Var tekið sjónvarpsviðtal við kappann fyrir brottförina. Þar mætti hann í mikilli lopapeysu, fallega útprjónaðri og silfurhnepptri. Lýsti hann því yfir að úr peysunni myndi hann ekki fara fyrr en okkar maður hefði lagt Kortsnoj. Það þótti  hraustlega mælt því gert var ráð fyrir að einvígið stæði í vikur, semog varð. Þegar líða fór á einvígið tóku umheiminum að berast fréttir af því að Kortsnoj teldi á sig hallað óheiðarlega, og ætti fylgdarlið Jóhanns sök þar á með vondri nærveru. Þóttu honum augnagotur Friðriks lymskulegar en mestan beyg kvaðst hann þó hafa af manni þeim,skringilega klæddum, er jafnan sat á fremsta bekk, þungbúinn mjög og illilegur. Þótti Kortsnoj sem að frá þeim manni andaði mikilli óhollustu. Þarf ekki að hafa um það fleiri orð að gamli skákmeistarinn hafði ekki þá burði sem til þurfti og féll, en Hallur frændi kom heim með sigurvegarann. Og þá kemur vísan hans Starra:

 

Kortsnoj er fallinn hver sem vó hann,
Kanada í reisunni.
Einn segir Friðrik annar Jóhann,
eða Hallur í peysunni.