19.09.2014
Stefan Löven er hægrikrati. Hann er grá-jakkafatakarl innan úr verkalýðshreyfingunni með langa reynslu af samningaþjarki um kaup og kjör. Þannig er hann vel tengdur atvinnurekendaforustunni. Það þarf ekki að vera slæmt, ætti þvert á móti verið gagnlegt. Hann er ekki grípandi ræðuskörungur , en maður sér að hann talar af sannfæringu þegar kemur að atvinnumálum.
Augljóslega ætlar hann að vinna sér stuðning frá hægri. Spark hans í Vinstriflokkinn - sem sumir telja asnaspark - er því rökrétt upphaf á puði hans við stjórnarmyndun.
Stefan Löven ásamt Talmannen, þ.e. forseta sænska þingsins. Talmannen leysir ríkisstjórnir formlega frá störfum og veitir umboð til stjórnarmyndana. Þetta er nokkuð merkilegt fyrirkomulag því talmannen er valinn úr hópi þingmanna í samræmi við valdahlutföll flokka í þinginu. Hann er því pólitískur. Til dæmis er núverandi talmann, Per Westerberg, Moderat og pólitískur andstæðingur Lövens. En hlutverk hans við stjórnarskipti er auðvitað einungis formlegt og í samræmi við niðurstöður kosninga. Konungurinn hafði þetta hlutverk þar til fyrir nokkrum árum að þingið tók það af honum.