16.10.2014
Vaðlaheiðargöng í bið.
Enn einn eitt hneykslið, ósvífnum kjördæmispoturum til ævarandi skammar. En Steingrímur og Kristján Möller munu seint skammast sín. Þeir knúðu Vaðlaheiðargöng fram fyrir eðlilega röðun verkefna í vegakerfinu. Ekkert nema frekjan og kjördæmapotið. Nú sjá menn hver staðan er: Engar áætlanir standast hvorki verklegar eða fjárhagslegar. En menn eru alveg sallarólegir. Ný verkáætlun er í skoðun, að henni er nú unnið í mestu rólegheitum, segja menn. Og fjármögnunin? Jú það er þörf á að semja upp á nýtt við lánadrottna og svo er heppilegt að gera nýja áætlun um reksturinn þegar göngin hafa verið opin í eitt ár og komið hefur í ljós hver umferðin verður, segir framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga. Hér kveður aldeilis við nýjan tón. Allt í einu er viðurkennd óvissa um sjálfan rekstrargrundvöllinn. Muna menn kokhreystina og fullyrðingarnar um ágæti þessa verkefnis? Fullyrt var að fjárfestingin mundi skila sér og göngin bera sig fjárhagslega á veggjöldum. En, ekki hafa áhyggjur kæru kjósendur, Það er ríkisábirgð á allri vitleysunni! Skattgreiðendum taka þetta þá bara á sínar herðar eins og önnur gæluverkefni ósvífinna og óhæfra þingmanna.
09.10.2014
Ekki er laust við að pólitíkin sé nokkuð undarleg þessa dagana hér í Svíþjóð þegar hin veika stjórn Sósíaldemokrata og Umhverfisflokksins - með 38% fylgi í þinginu - er að fóta sig við stjórn landsins. Og ekki verður nú sagt að samstaða stjórnarflokkanna sé 100%. Túlkanir þeirra á sumum ákvæðum stjórnarsáttmálans eru mjög mismunandi. Ótrúlegt misræmi kemu t.d. fram þegar fjallað er um framtíð kjarnorkuveranna í landinu. Åsa Romson, annar formanna Umhverfisflokksins, segir fullum fetum að tveir kjarnaofnar verði teknir úr notkunn á kjörtímabilinu. Löven segir stefnuna vissulega vera þá að hætta rekstri kjarnorkuveranna þegar fram líði stundir. Það geti hinsvegar ekki gerst á einni nóttu heldur ráðist af því hve fljótt takist að fá aðra og betri orkugjafa í gagnið. Alltaf þurfi að tryggja atvinnulífi og heimilum örugga orku, sem auðvitað er hið raunsæja mat.
07.10.2014
Nýlega var frá því sagt í Morgunblaðinu, að menn hefðu komist að því að eldspúandi drekar séu ekki til. Þetta kom mér nú ekkert á óvart, ég komst sjálfur að þessum sannindum fyrir mörgum árum, þegar bygging Þjóðarbókhlöðunnar var komin á lokastig. Þá var ég að velta fyrir mér hvernig nýta mætti síkið fyrirhugaða umhverfis húsið á þann hátt að sómi væri að. Mér þótti líka einboðið að vatn þetta yrði nefnt sérstaklega og kallað Bókhlöðusíkið. Ég sá strax að tilkomumikið myndi vera, og sérlega viðeigandi, að hafa einn eldspúandi dreka við hvert horn Þjóðarbókhlöðunnar. Sá ég fyrir mér að dýrin hefðu aðsetur hvert í sinni ,,grottu", sem arkitektinn færi létt með að hanna. (Annað eins hefur hann nú teiknað blessaður). Við hátíðleg tækifæri, eins og t.d. þegar einhver afkomandi Sigurðar Nordals ætti leið um brúna, kæmu drekarnir úr fylgsnum sínum og blésu eldi. Þá væri nú gagn að vatninu til að verjast eldsvoða.
Í framhaldi af þessum hugleiðingum sendi ég fyrirspurn til Landbúnaðarráðuneytisins til þess að kanna hugsanlegar undirtektir við umsókn um innflutning á nokkrum eldspúandi drekum. Þar á bæ fundu menn raunar engin paragröf í sínum reglugerðum sem beinlínis áttu við slík dýr. Málið taldist ekki einfalt í meðförum, og ljóst að ekki væri hægt að taka erindið til umfjöllunar fyrr en ráðuneytinu hefði borist formleg umsókn. Miklu myndi þá skipta, sögðu ráðuneytismenn, að með umsókn fylgdi óbrigðult vottorð um heilbrigði drekanna. Glöggur embættismaður benti reyndar á að það kynni að verða vandkvæðum bundið að hafa eldspúandi dreka í sóttkví, þar sem hús einangrunarstöðvarinnar í Hrísey væru ekki gerð úr eldtraustum efnum.
Skemmst er frá því að segja að leit mín á veraldarvefnum að eldspúandi drekum leiddi í ljós, eins og áður segir, að slík kvikendi fyrirfinnast ekki á allri jarðarkúlunni. Og þau eru ekki einu sinni útdauð - hafa bara aldrei verið til! Allar frásagnir í fornum sögnum og hetjukvæðum - sem menn lúra nú á í Árnastofnun - af fornköppum berjandi á eldspúandi drekum eru því bara lygasögur, þótt klóraðar hafi verið á dýrmæt skinn. Þessi niðurstaða olli mér auðvitað verulegum vonbrigðum. Ég vildi þó alls ekki gefa upp á bátinn hugmyndina um eitthvað sérstakt og eftirtektarvert í Bókhlöðusíkinu. Og eftir nokkrar vangaveltur þóttist ég sjá að plan B gæti verið að halda þar krókódíla í stað drekanna. Auðvitað gætu krókódílar reynst varasamir. Ekki mundi t.d. ráðlegt að fara í fótabað í Bókhlöðusíkinu ( kannske ekki viðeigandi heldur), og jafnvel gæti borið við að dýrin ætu einn og einn óhamingjusaman eilífðarstúdent, sem uppgefinn á baslinu stykki í síkið. Dýrin yrðu þó að mestu fóðruð á sláturafgöngum frá Bændahöllinni. Aðalatriðið fannst mér vera að þessar brynjuðu skepnur langt aftan úr þróunarsögunni, grimmar og stórháskalegar, vektu með gestum Bókhlöðunnar tilhlíðilega respekt er þeir nálguðust húsið.
Ég gaukaði hugmyndinni að kunningja mínum, ágætum háskólamanni sem var í nefnd um frágang lóðarinnar. Sá kveikti þó ekki á krókódílunum og hugmyndin mun ekki einusinni hafa komið til umræðu í nefndinni. En ég get nú ekkert verið að erfa það fálæti eða taka nærri mér, enda vita allir sem til þekkja að mikið skal til svo að bjart ljós kvikni á venjulegri akademískri peru.
Nú er enn komið að stórframkvæmdum á Háskólalóðinni og fyrirhugað að reisa þar hús yfir Árnastofnun. Að ytra formi á byggingin að líkjast danskri saumakörfu, en umhverfis hana á að vera myndarlegt sýki. Minna má það nú ekki vera!
Þegar er búið að grafa fyrir síkinu og ríflega það, en nú er stopp í bili meðan menn hugsa sitt ráð og reyna að slá á það tölum hve marga milljarða muni þurfa til að fylla holuna. Á meðan geta astronautar virt fyrir sér þetta gap í jarðskorpunni utan úr geimnum
En nú eru nýir tímar með tækni sem gefur
okkur