Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

13.08.2005

,, Tími til að skapa".

 

 

 Það er nokkuð ljóst að ekki verður oftar boðinn fram R-listi í borginni. Við munum því geta valið á lista í opnu prófkjöri, laus við hið leiðinlega hólfafyrirkomulag  sem R-listinn  taldi nauðsynlegt til að hver flokkur fengi sitt og kjósendurnir gerðust ekki  ráðríkir um of. Þetta lofar góðu; opin prófkjör ættu að veita nýjum kröftum og nýjum hugmyndum inn í borgarmálin.

 Ef litið er framhjá málefnum Námsflokka Reykjavíkur þá hefur R-listinn staðið sig vel í skólamálum. Nýjar byggingar hafa verið teknar í notkun bæði fyrir leik og grunnskóla. Allir grunnskólar eru nú einsetnir og þykir sjálfsagt.  Menningu og listum hefur verið sinnt af metnaði.

Á hinn bóginn hafa ýmsir þættir atvinnulífsins verið látnir sigla sinn sjó sem sést best af því að fjöldi fyrirtækja hefur flutt sig úr borginni  í önnur sveitarfélög. Þessu þarf að breyta á næsta kjörtímabili, það þarf að gæta þess að skilyrði séu fyrir fjölbreytni í  atvinnulífi.  

Ýmislegt á vettvangi Orkuveitunnar hefur kallað á réttmæta gagnrýni. En Orkuveitan er náttúrlega okkar gullnáma og sú aukning í orkuvinnslu sem nú er í undirbúningi mun skila borgarbúum arði um mörg ókomin ár.

 

Stefnumótun er næst á dagskrá. Þar vega skipulagsmálin þungt. Stöðugur lóðaskortur er ekki viðunandi. Verðlagning lóða  í Reykjavík er komin í  algjöra vitleysu. Það gengur ekki að inni í verði blokkaríbúðar séu fleiri miljónir fyrir lóðina eina. Borgaryfirvöld geta ekki haldið að sér höndum og kennt bönkunum um. R-listinn  virðist ekki hafa séð lóðaskort sem vandamál. Taka þarf upp nýja stefnu í því efni. Auk þess var lóðaverð sprengt upp með uppboðsaðferðinni á sama tíma og eftirspurn var margflat meiri en framboð lóða. Þegar  byggingarlóð er verðlögð má ekki gleyma því að sveitarfélagið mun innheimta gjöld af mannvirkinu á lóðinni  í tugi ára, ef ekki hundruð.

 

Við þurfum að komast að niðurstöðu um flugvöllin, þéttingu byggðar og Sundabraut. Kjósa menn innri leiðina, sem fellur vel að landinu, eða hábrú, utan við höfn Samskipa? Þetta og fjölmargt fleira þarf að ræða og móta tillögur um. Svo það verður nóg að gera þótt R-listinn heyri sögunni til.

10.08.2005

Nýr vegur yfir Kjöl.

 

Undanfarið hefur verið rætt um að byggja upp heilsársveg yfir Kjöl. Áform eru um að nýstofnað fyrirtæki,Norðurvegar ehf , annist verkið í einkaframkvæmd eins og það heitir, og fái síðan að innheimta veggjald af umferð um veginn.

   Það er góð hugmynd að ljúka gerð  heilsársveg á milli landshluta eftir hinni fornu leið um Kjalveg. Í því felst áreiðanlega mikil hagkvæmni. En að láta sér detta í hug að innheimta sérstakt veggjald á leiðinni er alveg fráleitt og gengur engan veginn upp. Það er áratuga hefð fyrir því að aka Kjalveg og umferð er þar jafnan mikil þann tíma ársins sem vegurinn er opinn. Ekki er með nokkru móti hægt að sætta sig við að leiðinni verði lokað nema gegn sérstöku gjaldi. En slík verður raunin nái þessar fyrirætlanir fram að ganga því ekki verður þarna um nema eina leið að ræða: hinn nýja gjaldskilda Kjalveg. Að benda mönnum á að fara þá bara venjulegu norðurleiðina um þjóðveg 1  gengur ekki, munurinn er allt of mikill t.d. fyrir fólk á Suðurlandi. Þetta er ósambærilegt við Hvalfjarðargöng, þar sem valið stendur um að fara um göngin gegn gjaldi eða aka nokkuð lengri leið eftir ágætum vegi fyrir fjörðinn. Sama má segja um Vaðlaheiðargöng þegar þar að kemur, þar verður væntanlega gjaldtaka en lítið mál að fara heldur Víkurskarð kjósi menn það.

    Þjóðin á nú þegar verulegt fjármagn bundið í vegagerð á Kjalvegi en tugir kílómetra vegarins hafa verið byggðir upp bæði sunnan megin og norðan og einungis eftir að ljúka  byggingu tæplega 100 km kafla og leggja slitlag. Samkvæmt frásögn Fréttablaðsins nú nýlega, er kostnaður við að ljúka gerð Kjalvegar áætlaður 1.2 milljarðar króna. Öll vegagerðin að viðbættum nýjum vegi frá leiðinni yfir Kjöl og niður í Norðurárdal í Skagafirði - sem styttir leiðina til Akureyrar - er talin kosta rúmlega 3 milljarða. Sú upphæð er eiginlega smáræði samanborið við kostnað við gerð Héðinsfjarðarganga. Þó er ekki gert ráð  fyrir gjaldtöku þar.

   Vonandi verður af þessari vegagerð bráðlega enda um mikið þarfaverk að ræða. Til þess mætti verja broti af símapeningunum ef  ekki væru önnur ráð til að kosta verkið. En þau ráð eru reyndar til og felast í því að verja öllu því fé sem innheimt er af ökutækjum til vegamála, en ekki einungis 30 - 40%  eins og nú mun raunin. Það er óþarfi að kveðja einkavædda rukkara að þessu verki. Bílaeigendur eru fyrir löngu og marg sinnis búnir að borga nýjan Kjalveg ef út í það er farið.

 

Haukur Brynjólfsson.

05.08.2005

Listaverkakaup ríkisstjórnarinnar.

Listaverkakaup - myndlistarsýning.

Var það rétt ákvörðun hjá ríkisstjórninni að kaupa myndirnar hans Sigmunds? Hefðum við í staðinn átt að eignast alvöru listaverk s.s. heysátu, moldarbing nú eða málningardollur fyrir 10 millur? Það kemur auðvitað ekki til greina að kaupa málverk eftir að í ljós er komið að listfræðingar eru ekki klárir á að þekkja sundur raunverulegt listmálað skilerí og fölsun.

    Ég hef að vísu slæma reynslu af dollunum en látum svo vera. Svoleiðis var að fyrir nokkrum árum ákváðum við hjónin að helga menningunni sunnudagssíðdegi og fara á rómaða myndlistarsýningu. Er við gengum í salinn var þar fyrir nokkur hópur af ákaflega gáfulegu fólki og mikill fjöldi af málningardollum. Dollurnar stóðu víða um salargólfið en fólkið saman í hnapp. Engar myndir á veggjum. Í fljótfærni hnyppti ég í konuna mína og sagði stundarhátt: ,, Við erum í vitlausum sal góða mín, hér að að fara að mála". Um leið og síðasta orðið slapp af vörum mínum sá ég að ég hafði hlaupið illa á mig og opinberað kunnáttuleysi mitt í æðri listum. Þarna voru ekki iðnaðarmenn saman komnir heldur lýsti af gildum menningarvitum. Listfræðingur landsins ljómaði yfir sviðinu eins og fullur máni á ágústnóttu. Í miðjum hópnum stóð listamaðurinn sjálfur, viðurkenndur og marg verðlaunaður. Við vorum sem sagt stödd í myndlistarsýningunni, málningardollurnar voru listaverkið.

 

    Vonandi hefur Listasafn ríkisins haft bæði fjármuni og gæfu til að eignast verkið svo það varðveitist um ókomin ár í þágu sannra listunnenda. En mér er engin launung á að ég kunni ekki rétt vel við mig þarna eftir þessa háðung. Mér var heldur engin huggun í  meðaumkunarfullum augnagotum sumra hinna listfróðu, enda ekki viss um að full einlægni væri þar að baki. Ég reyndi um stund að bera mig vel og horfa gáfulega á dollurnar en gat bara ekki komist í stuð. Við hjónin hurfum því fljótlega af vettvangi, en ég man að ég hugsaði mér að nota tækifærið og horfa rækilega á málningarlagerinn næst er ég ætti erindi  í  Bykó eða Húsasmiðjuna. Það hef ég gert og orðið þess fullviss að ég næ þessu ekki; mig skortir hinn rétta skilning. Ég hallast að einfaldari túlkunum þannig að Sigmund hæfir mér betur. En ég ber djúpa virðingu fyrir þeim sem skilja dollurnar.

 

Birt í Fréttablaðinu í janúar 2005.

05.08.2005

Íbúalýðræði.

Stjórnmálamenn  tala um íbúalýðræði. Í því samhengi er gagnlegt og eðlilegt að velta fyrir sér hvernig almennum borgurum tekst að ná eyrum borgaryfirvalda og koma á framfæri ábendingum eða kvörtunum. Hér skulu lauslega rakin tvö nærtæk dæmi úr Fellahverfi í Breiðholti:

1) Stór umferðargata, Norðurfellið, sker sundur svæðið á milli íbúðarblokka og skóla. Hraðakstur á þessari götu hefur löngum verið áhyggjuefni foreldra í hverfinu og foreldrafélög hafa árum saman sent borgaryfirvöldum tilmæli um að ráðstafanir verði gerðar til að ná niður umferðarhraðanum á götunni. Ástandið er beinlínis geigvænlegt um átta leitið á dimmum vetrarmorgnum þegar umferðin er í hámarki; úr hverfinu ekur fólk til vinnu sinnar en á móti koma m.a. ökugarpar úr F.B. Þeir fara mikinn eftir Norðurfellinu enda að verða of seinir í skólann. Í öllum þessum hamagangi eru svo grunnskólabörn frá hinum elstu til hinna yngstu að paufast í skólann í myrkrinu. Þau hafa tvær merktar gangbrautir með löngu millibili til að komast yfir götuna. Afleiðingin er sú að þau fara líka yfir götuna á ómerktum stað, á milli gangbrautanna. Þannig eru nú börn, þau gera ekki alltaf eins og þau eru beðin um. Yfirvöld hafa loks  áttað sig á því -sem foreldrar í hverfinu hafa ávallt vitað - að börnin eru í stóhættu á hverjum degi  á leið í skóla og heim aftur.  Þess vegna hefur nú Norðufellið verið merkt sem 30-gata. Það var einfaldlega gert með því að mála töluna 30 á malbikið. Engar viðbótar þrengingar, blikkandi ljós eða annað til að vekja athygli ökumanna, sem væri þó nauðsynlegt. Það eru ekki miklar ýkjur að segja að ökumenn almennt gefi skít í 30-regluna á Norðurfelli en aki  þar eins og þeim sýnist. Þetta á m.a. við um marga ökumenn strætisvagnanna, atvinnumenn sem ættu þó heldur að sýna gott fordæmi.

Borgaryfirvöldum, lögreglu og Umferðastofu hefur margsinnis verið bent á þessi brot - án nokkurs sýnilegs árangurs.  Hefur R-listinn eitthvað með þetta að gera ? Ég bara veit það ekki.

 

2) Fyrir mörgum árum vorum við í stjórn Foreldrafélags Fellaskóla að velta því fyrir okkur hvað hægt væri að gera til að auka möguleika barna til skemmtilegra útileikja hér á svæðinu. Við höfðum einkum í huga  börn sem voru svona að vaxa upp úr því að leika sér á róló og þaðan af eldri börn og vildum draga úr löngun þeirra til að fara úr hverfinu, t.d. niður í bæ.

Á þessum tíma var nokkuð almennur skautaáhugi meðal barnanna. Þau renndu sér á ísuðum bílastæðunum því ekkert er skautasvellið í hverfinu. Við minntumst þess þá hvernig skautasvell var gert á gamla Melavellinum forðum, skrifuðum borgaryfirvöldum og báðum um að vatni yrði veitt á svæði nærri  Fellaskóla þegar  frost væri og þannig gert skautasvell. Frá borgarráði fengum við jákvætt svar og því var lýst í bréfi hvernig framkvæmdinni yrði háttað.

 

Um vorið tók R-listinn við völdum í borginni. Ekki datt okkur í foreldrafélaginu í hug að nýr meirihluti í borginni færi að  breyta fyrri ákvörðun um svo lítð mál sem náttúrulegt skautasvell  í Fellunum.En næsta ár leið án þess að bólaði á  skautasvellinu þótt frost væru ærin um veturinn.

Á hverfafundi næsta haust var hinn nýi borgarstjóri spurð um skautasvellið og bent á fyrri samþykkt borgarráðs. Hún kvaðst þá þurfa að ráðgast við sína menn um málið. Þannig leið tíiminn og reyndar árin án þess að staðið væri við loforð um skautasvell við Fellaskóla. Marg oft var haft samband við embættismenn borgarinnar, hjá Íþrótta- og Tómstundaráði og fleiri stofnunum borgarkerfisins. Um síðir varð okkur ljóst að einhverjir þessara aðila voru að þvæla málinu í kerfinu til þess að eyðileggja það. Stjórn foreldrafélagsins ákvað nú að snúa sér beint til borgarstjórans og pantaði viðtal vegna málsins. Þó hófst næsti þáttur þessa skrípaleiks; þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fengum við ekki áheyrn hjá borgarstjóranum. Hún var ávalt upptekin ýmist hér heima eða í útlöndum. Að vísu var okkur einu sinni lofað viðtali en það var afturkallað á síðustu stundu, borgarstjórinn hafði þurft að bregða sér eina ferðina enn til útlanda. Að lokum fengum við tvö úr stjórninni áheyrn hjá forseta  borgarstjórnar, Árna Þór Sigurðssyni. Við röktum fyrir  honum málið, bentum á fyrri samþykkt borgarráðs og vildum fá loforð fyrir skautasvelli næsta vetur. En Forsetinn vildi engu lofa um það stóra mál, sagði að það yrði athugað. Mín upplifun af fundi með þessum manni var sú að það læki af honum andskotans fýlan. Þetta vor hætti ég í foreldrastarfinu um leið og mínir ungar flugu úr grunnskólanum. Ég vissi því aldrei nákvæmlega hverjar lyktir málsins urðu, hvort foreldrafélagið fékk eitthvert svar að lokum ( ég þarf nú bara að athuga það), en svo mikið er víst að enn hafa ekki starfsmenn borgarinnar komið með vatnsslönguna að gera skautasvell við Fellaskóla þótt margir kaldir vetrardagar hafi síðan  runnið sitt skeið.

Stjórnmálamenn sem svona haga sér hljóta að vera haldnir þeirri ranghugmynd að kjósendur séu til fyrir þá. Að almenningur hafi ekki annað til málanna að leggja en krota krossinn í kjörklefanum á fjögurra ára fresti. Ég  fyrir mitt leiti hef ekki nokkurn hug á að hefja þannig þenkjandi fólk til valda.

 

05.08.2005

Tími R-listans er liðinn.

Enn er varið tíma og orku í tilraun til að endurnýja R-listann. Ég er á móti því en vil að Samfylkingin bjóði fram  til borgarstjórnar í eigin nafni og á eigin forsendum. Flokkurinn láti reyna á styrk sinn í en sé við því búin að mynda nýjan meirihluta að kosningum loknum - nú eða verði í minnihluta um sinn ef svo vill verkast. Þannig er lýðræðið. Aðalatriðið er að nú verði farið að nota tímann og orkuna til stefnumótunar. 

Ég er  alveg  ósammála þeim  skoðunum, sem fram hafa komið að batnandi útkoma Sjálfstæðissflokksins í skoðannakönnunum undanfarið hljóti að  þrýsta á um að R-lista samstarfið verði endurnýjað.Tími R-listans er liðinn, hann er dauðþreytt fyrirbæri. Þrú kjörtímabil eru alveg nægjanlegur tími til að fá út það sem jákvætt kann að hafa verið í samstarfinu. Undanfarið hefur meira borið á því sem neikvætt er. Tækist mönnum hinsvegar að klastra þessu kosningabandalagi saman einu sinni enn, reknir áfram af óttanum einum við það að  Sjálfstæðismenn nái völdum í borginni, þá held ég að  ekki yrðu unnin nein frægðarverk á næsta kjörtímabili. Þá væru framundan fjögur ár hrossakaupa, togstreytu og karps  -og árangur eftir því. Og ekki yrði  kosningabaráttan skemmtileg,  til þess er R-listi nú of augljóst hræðslubandalag, að maður ekki segi brella gegn lýðræðinu.

Ég ætla rétt að  vona að Samfylkingin taki nú frumkvæði í málinu - missi ekki af því  - en loki snarlega  á þetta  R-lista strögli og baktjaldamakk, og lýsi því yfir að flokkurinn gangi einn og óbundinn til borgarstjórnarkosninga.