Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

14.04.2012

Til Svíþjóðar.


                                           Kveðjustund í Kaffivagninum

     

   Við veiðfélagarnir, Sólmundur, Geir, Haukur og Jóhann hittumst í Kaffivagninum til að fá okkur kaffisopa, rabba saman og segja bless því ég var á förum til langdvalar í Svíþjóð. Það hafði lengi staðið til að hluti stórfjölskyldunnar færði sig um set, og nú var komið að því.  Á borðinu hjá mér hér í Ekeby situr nú útskorinn og stífærður himbrimi og horfir á mig sínu rauða auga á meðan ég skrifa þetta. Kveðjugjöf frá félögunum.

                     
                

    Þriðjudaginn þrettánda mars lagði ég í hann akandi til Seyðisfjarðar til að taka 
    Norrænu til Danmerkur. 
     
                                      
     
 
   Á Mýrdalssandi. Fyrir örfáum árum var þarna einungis svartur sandinn, enginn gróður en sandfok og lakkskemmdir á bílum ef hvessti. Nú heftir lúpínan sandinn og á sumrin er svæðið blátt yfir að líta. En það er ekki síst eftir að blómin eru fallin sem maður gerir sér grein fyrir gagnsemi landgræðsluplöntunnar, þegar við manni blasir allur þessi jarðvegsmyndandi lífmassi sem að plantan leggur til og mun að miklu leiti vera myndaður úr köfnunarefni andrúmsloftsins. Ætla rétt að vona að umhverfisráðherrann eigi ekki leið þarna um með plöntueitrið sitt.
              
                  

                      ,,Jötuninn stendur með járnstaf í hendi jafnan við Lómagnúp...."

                    



   Það var græn slikja á melunum undir Lómagnúpi. Svolítið vestar, við fjallsræturnar, er merkilegt náttúrufyrirbrigði: Þar hefur fallið mikil grjótskriða úr gnúpnum, garfið fyrir tjörn uppi við brekkuna, rutt efninu á undan sér og hlaðið upp görðum úr möl og grjóti. Þarna liggja feiknastór björg sem áður voru hluti af bergstálinu fyrir ofan.
Tjörnin er falleg en ekki öll þar sem hún er séð. Það fékk ég að reyna er ég lenti þarna í dálítið óþægilegu ævintýri eitt haustkvöld fyrir áratugum. Ég var þá að koma austan úr Öræfum og ákvað að kíkja eftir öndum á tjörninni. Jú,þar voru endur og brátt flutu tvær hreyfingarlausar á spegilsléttu vatninun. En það var í kominn í mig einhver beygur í bland við veiðigleðina, það var ekki einleikið hve rosalega skotin gátu  bergmálað  í hamraveggnum sem gnæfði yfir í húminu. Umhverfið var svo magnþrungið að eitt augnablik datt mér í hug að Jötuninn kynni að hafa hrokkið upp við þessa freklegu truflun. Best að sækja endurnar í hvelli. Ég óð hratt í örgrunnu vatninu með byssuna í hendinni, sem ekki var nú gáfulegt, en botninn var alveg sléttur og fínn svo þetta ætlaði að verða auðvelt mál. En allt í einu steig ég út í tómið og fór á bólakaf í óstætt vatn. Ég velti mér á bakið og svamlaði með fótunum og annarri hendinni - í hinni var byssan - þar til ég botnaði aftur. Þá hafði ég hraðann á, náði í kaststöng í bílinn, ,,fiskaði" endurnar og hvarf af vettvangi. Líklega hefur Jötuninn horft glottandi á eftir mér.

Seinna skoðaði ég aðstæður í björtu og sá þá að botn tjarnarinnar er mjög ósléttur þar liggja gríðarstórir steinar en djúpir pyttir á milli. Þegar ég fékk hið óvænta bað hafði ég  hafði stigið framaf stærðar bjargi sem er rennislétt að ofan; ekki skrítið að ég var ánægður með botninn - til að byrja með. Nú er víst búið að friðlýsa svæðið. 

   Þetta rifjaðist upp þegar ég ók framhjá bergrisanum og austur Skeiðarársand. Ég hafði ætlað að gista á Hornafirði en spáin var ekki góð fyrir norðanverða Austfirði næsta dag, svo ég ákvað að fara lengra og hafa tímann fyrir mér ef leiðindi yrðu á Fjarðarheiðinni. En ég tók bensin á Hornafirði og sem ég er að borga í sjoppunni snarast Sverrir Scheving þar inn. Hann var að koma úr kvöldsundinu hress og viðræðugóður að vanda og sagði mér að hringja bara í sig ef að springi hjá mér eða einhver vandræði steðjuðu að. Svo kvöddumst við Sverrir og ekki er að vita hvenær við tökum tal saman næst. Ég hélt áfram til Djúpavogs og gisti á ,,Hótel Framtíðin". Þar var gott að leggja sig.


                               

                                                Friðsæll vetrarmorgun á Djúpavogi 




   Ég var kominn til Seyðisfjarðar fyrir hádegi á miðvikudeginum. Þar var skipið Norröna  fyrirferðarmikið í bæjarmyndinni.

                                       

    Veðurspáin rættist, gott að vera kominn yfir Fjarðarheiði. Við létum úr höfn klukkan
    tíu um kvöldið.
     
     
       


       Gleymdi reynar alveg að smakka þennan bjór, en merkið er skemmtilegt. 


  


                      Í Þórshöfn var hífandi rok en gæfulegur regnbogi yfir staðnum.
                                                              
                                                                        
                                                                                                                       
       
                                                                                  
       Smyrli var snúið á punktinum í þröngri               Uppi í bænum er hægt að fá hár sitt
      höfninni.                                                              fríðkað.                                                                                                                         
                                                               
                                                                              
        

        
Frá Shetlandseyjum hefur kúrsinn væntanlega verið settur á Jótlandsskaga.


   Um hádegisbilið,Laugardaginn 17. mars, ók ég í land úr Norrænu í Hirtshals, heldur gráleitum bæ norðarlega á Jótlandi. Brunaði svo suður Danmörku allt til Kaupmannahafnar á leið minni til Ekeby í Svíþjóð. Visakortið mitt ýmist virkaði eða því var hafnað þrátt fyrir innistæðu og rétt pin númer. Sú varð raunin þegar kom að því að greiða brúartollinn Svíþjóðarmegin Eyrarsunds, þar var kortinu mínu þverlega ,,Avvisad". Ekki lét ég mér bregða við það en dró upp varasjóðinn, færeyska hundraðkalla, sem ég stakk í lúkurnar á gjaldkeranum, og hlakkaði nú mjög til að sleppa í gegn um hliðið og bruna framhjá Malmö, norður E20 veginn, alla leið á áfangastað. En þar var hugurinn kominn framm úr aðstæðunum, því gjaldkerinn vildi ekkert með færeyskt fé hafa, en spurði mig ítrekað hvað þetta væri fyrir peninga. Tók nokkra stund að fá hann til að muna að Færeyjar væru til á jarðarkúlunni og heyrðu undir sama kóngaskekkti og Danmörk. Lengra varð honum ekki þokað í átt að viðurkenningu á færeysku seðlunum, enda benti hann réttilega á að rækilega er tekið fram á skiltum við gjaldhliðin að þar sé einungis tekið við dönskum peningum og sænskum, auk korta. Tók hann nú upp símann til að ráfæra sig við yfirmann sinn. Sá kom óðara með lausn á vandanum: ég skyldi snúa við til Köben og skipta þar þessum seðlum í viðurkennda peniga, sem ég kæmi svo með aftur til að greiða brúartollinn. Ég sá strax að þetta mundi vera Salamonsdómur sem ekki yrði mótmælt, og brenndi því til baka yfir til Kastrup. Þar höfðu víxlarar þegar rennt stálgrindum fyrir afgreiðslubása sína og voru sjálfsagt farnir heim að sofa.

Þótt ég hefði þannig ekið Eyrarsundsbrúna í tvígang án þess að greiða fyrir, var ég ekki vel hress með stöðuna. Svo oft hafði kortinu mínu verið hafnað að ég þorði ekki framar að stinga því í hraðbanka af ótta við að það hyrfi þá endanlega. Án kortsins gat ég hinsvegar ekki greitt bæði brúartoll og bensin til að ljúka ferðinni. Ég beið því morguns, skipti þá færeysku seðlunum í nothæft fé, lagði bílnum í leigustæði, keypti lestarmiða til Helsingborgar og tók þaðan strætó til Ekeby.

Þar urðu fagnaðarfundir enda var fólkið mitt orðið verulaga hrætt um mig. Ég gat nefnilega ekki látið vita af mér meðan á þessu veseni stóð. Þó hafði ég keypt gsm-,,startpakka" frá Telia í Danmörku sem átti strax að vera virkur. Svo reyndist ekki vera heldur komu meldingar um að viðkomandi númer sem ég hringdi væri ekki í notkun eða ekki virkt. Sjálfur fjandinn má vera í viðskiptum við Telia í minn stað framvegis. Myntsímar eru orðnir fágætir á þessum slóðum, ég fann einn á Kastrup en hann var bilaður, eða virkaði hann bara innanlands. Allt þetta vesen var auðvitað bara sjáfum mér að kenna og skorti á undirbúningi og fyrirhyggju. Ég hafði ekki tékkað á að kortið mitt væri opið fyrir úttektir erlendis og svo var náttúrlega út í hött að vera ekki með virkan gemsa.

Næst ætla ég ekki að keyra suður Danmörku en fara heldur til Fredrikshavn ( innan við 100 km frá Hirtshals) og taka þaðan ferju yfir til Gautaborgar. Þaðan eru einungis um 220 km akstur suður til Ekeby.





Karlsgatan 3 í Ekeby. Hér búa Elva og Stígur með börnin sín fjögur: Úlf, Rán, Hauk og Hrafn. Svo eru það amman og afinn, frú Jóhanna og ég líka. 
 
 


Gestahúsið þar sem amman og afinn ætla að búa. Það þarf þó lagfæringa við áður en við getum flutt inn. Kemur ekki að sök því nægt pláss er í stóra húsinu.























                  Haukarnir í fjölskyldunni við morgunverðarborðið.


























                                        Og ljúflingurinn Hrafn er að verða átta mánaða.

  


                                         

Úlfur og Rán fengu að fara í sirkus og voru í miklu stuði þegar þau komu heim.

06.04.2012

Ævintýri á ökuför

   Um hádegisbilið,Laugardaginn 17. mars, ók ég í land úr Norrænu í Hirtshals, heldur gráleitum bæ nyrst á Jótlandi. Brunaði svo suður Danmörku allt til Kaupmannahafnar á leið minni til Ekeby í Svíþjóð. Visakortið mitt ýmist virkaði eða því var hafnað þrátt fyrir innistæðu og rétt pin númer. Sú varð raunin þegar kom að því að greiða brúartollinn Svíþjóðarmegin Eyrarsunds, þar var kortinu mínu þverlega ,,Avvisad". Ekki  lét ég mér bregða við það en dró upp varasjóðinn, færeyska hundraðkalla, sem ég stakk í lúkurnar á gjaldkeranum, og hlakkaði nú mjög  til að sleppa í gegn um hliðið og bruna framhjá Malmö, norður E20 veginn, alla leið á áfangastað. En þar var hugurinn kominn framm úr aðstæðunum, því gjaldkerinn vildi ekkert með færeyskt fé hafa, en spurði mig ítrekað hvað þetta væri fyrir peninga. Tók nokkra stund að fá hann til að muna að Færeyjar væru til á jarðarkúlunni og heyrðu undir sama kóngaskekkti og Danmörk. Lengra varð honum ekki þokað í átt að viðurkenningu á færeysku seðlunum, enda benti hann réttilega á að rækilega er tekið fram á skiltum við gjaldhliðin að þar sé einungis tekið við dönskum peningum og sænskum, auk korta. Tók hann nú upp símann til að ráfæra sig við yfirmann sinn. Sá kom óðara með lausn á vandanum: ég skyldi snúa við til Köben og skipta þar þessum seðlum í viðurkennda peniga, sem ég kæmi svo með aftur til að greiða brúartollinn. Ég sá strax að þetta mundi vera Salamonsdómur sem ekki yrði mótmælt, og brenndi því til baka yfir til Kastrup. Þar höfðu víxlarar þegar rennt stálgrindum fyrir afgreiðslubása sína og voru sjálfsagt farnir heim að sofa.

  
   Þótt ég hefði þannig ekið Eyrarsundsbrúna í tvígang án þess að greiða fyrir, var ég ekki vel hress með stöðuna. Svo oft hafði kortinu mínu verið hafnað að ég þorði ekki framar að stinga því í hraðbanka af ótta við að það hyrfi þá endanlega. Án kortsins gat ég hinsvegar ekki greitt bæði brúartoll og bensin til að ljúka ferðinni. Ég beið því morguns, skipti þá færeysku seðlunum í nothæft fé, lagði bílnum í leigustæði, keypti lestarmiða til Helsingborgar og tók þaðan strætó til Ekeby.

Þar urðu fagnaðarfundir enda var fólkið mitt orðið verulaga hrætt um mig. Ég gat nefnilega ekki getað látið vita af mér meðan á þessu veseni stóð. Þó hafði ég keypt gsm-,,startpakka" frá Telia í Danmörku sem átti strax að vera virkur. Svo reyndist ekki vera heldur komu meldingar um að viðkomandi númer sem ég hringdi væri ekki í notkun eða ekki virkt. Sjálfur fjandinn má vera í viðskiptum við Telia í minn stað framvegis. Myntsímar eru orðnir fágætir á þessum slóðum, ég fann einn á Kastrup en hann var bilaður, eða virkaði hann bara innanlands.  Allt þetta vesen var auðvitað bara sjáfum mér að kenna og skorti á undirbúningi og fyrirhyggju. Ég hafði ekki tékkað á að kortið mitt væri opið fyrir úttektir erlendis og svo var náttúrlega út í hött að vera ekki með virkan gemsa.

   
   Næst ætla ég ekki að keyra suður Danmörku en fara heldur til Fredrikshavn  ( innan við 100 km frá Hirtshals) og taka þaðan ferju yfir til Gautaborgar. Þaðan eru einungis um 220 km akstur suður til Ekeby.