Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

25.02.2012

Evrópsk hugsun

Ótrúlegt frumhlaup Guðbergs Bergssonar er hann slóst upp á forsetann með illmælgi í blaðagrein, varð tilefni eftirfarandi hugleiðinga:

  
   Guðbergur telur að við höfum liðið fyrir það að vera um aldir einangruð hér á skerinu frá einhverju sem hann kallar evrópska hugsun. En hvað á Guðbergur við með evrópskri hugsun? Er til einhverskonar samevrópsk hugsun, og hvað felst þá í henni? Veltum því fyrir okkur. Felst í henni siðferðismat fólks sunnan Alpafjalla eða norðan þeirra? Var Helförin sprottin úr  ,,hinni evrópska hugsun" ?

   Um gervalla álfu hinnar klassísku menningar var fólki smalað saman og það flutt í gripavögnum í drápsfabrikkur þar sem milljónir manna; konur með smábörn í örmum sér jafnt sem karlar, voru myrt af verkfræðilegri yfirvegun og stöðugt voru afköst morðiðjuveranna aukin. Það er varla liðinn mannsaldur frá lokum þessa kafla í sögu þess ríkis sem væntanlega telst eitt af burðarríkjum evrópskrar hugsunar  - þetta er bráðnauðsynlegt að muna.

   Voru Sovétríkin grunduð á hinni ,,evrópsku hugsun"? Fasisminn á Ítalíu og á Spáni, og fasismi yfirleitt, hvar er uppruni þeirrar hugmyndafræði?

   Reyndar höfum við Íslendingar ekki farið varhluta af evrópskri hugsun, eða hvar halda menn að hin óhugnanlega refsigleði fyrri alda hafi verið upprunnin?  Stóridómur, galdraofsóknir og allt það brjálæði.

   Bandaríkin eru vissulega víða kámug og hafa staðið fyrir mörgu illu í stjórnmálum heimsins, en þegar þeim er úthúðað í þeim tilgangi að upphefja Evrópu, þá er rétt að minnast þess að tvisvar á síðustu öld þurftu Bandaríkin að koma til og  skera stórveldi Evrópu úr snörunni, hjálpa þeim að ljúka styrjöldum og koma á friði. Hvað hratt þeim styrjöldum af stað? Jú, evrópsk hugsun stóriðjuhölda og bankaauðvalds. 

   

 Guðbergur má auðvitað dásama það sem hann vill dásama og þrútna allur af menningarlegri kveisu þegar hann fær köstin, en ummæli hans um forsetann eru ekkert annað en rógburður og skítug illmælgi. Það er þó til einskis að krefjast ábyrgðar af Guðbergi eða vera vondur við hann. Hann er greinilega stjörnuruglaður um þessar mundir enda fyrir löngu búið að telja honum trú um að hann sé snillingur sem ekki geti slegið feilpúst. Það gerir hann reyndar oft, en elítan harkar af sér og stendur með sínum manni. Og það tíðkast að gapa af aðdáun yfir hverri dellu sem hinn viðurkenndi snillingur frussar út úr sér.

 

   Einkabankar hafa víða um lönd farið á hausinn í gegn um tíðina án þess að rokið hafi verið til og ríkisábyrgð veitt eftirá. Íslendingar neituðu á laugardaginn að veita slíka ábyrgð án þess að úr því verði skorið lögformlega hver skylda okkar kanna að vera. Það ber að þakka forsetanum sem og það, að hann hefur sköruglega útskýrt málstað okkar í erlendum fjölmiðlum. Hann er langöflugasti talsmaður þjóðarinnar í yfirstandandi deilu.

   Viðbrögð hollenskra stjórnvalda við neitun okkar - hótanir um  þvinganir og yfirgang -     eru ekki mjög lögformleg, en gefa athyglisverða vísbendingu um trú þeirra á eigin málsstað. Evrópsk hugsun í  gamla nýlenduveldinu?

  

04.02.2012

Einn í leikhús

Til stóð að frú Jóhanna og ég færum í leikhús í gærkvöld. Miðana höfðum við fengið í hendur fyrr í vikunni og nokkur tilhlökkun var þegar í gangi hjá okkur hjónakornunum. En þá vorum við skyndilega minnt á lögmál Murphys: Yfir frúna helltist flensa með háum sótthita. Leikhússferð kom ekki til greina fyrir hana. Skemmst er frá því að segja að enginn í nærumhverfinu átti heimangengt í leikhús með svo stuttum fyrirvara, svo að ég fór einn - með tvo miða. Sem betur fer tókst mér þó að nýta báð miðana með því að sitja í sæti nr. 20 fyrir hlé og  21 eftir hlé. Ég hef orðið svo nýtinn með aldrinum. Konan í sæti 22 leit nokkuð fast á mig þegar ég settist við hlið hennar eftir hléið, svo ég sagði henni að það væri vani minn að kaupa ávalt tvo miða og skipta um sæti í miðri sýningu. Eftir það horfði  konan bara beint fram, eins og vera ber í leikhúsi.
Sýningin, farsinn ,,Nei ráðherra" þótti mér stórskemmtileg, ég skellihló eins og hinir, ég er  orðinn svo einfaldur með aldrinum. Í alvöru talað þá dáðist ég að leikurunum fyrir frammistöðuna. Þeir komu bráðfyndnum textanum vel til skila þrátt fyrir sífelld  hlaup inn og út um dyr og glugga. Ekta farsi, og það er snilld þegar aðstoðarmaður ráðaherrans skutlar sér í lokin út um hinn stórhættulega glugga - með fæturna á undan.