Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

27.05.2008

Vatnsmýrarklúður

  Svo er að sjá af könnun Fréttablaðsins í gær sem stjórnmálamönnum hafi tekist að klúðra til einhverrar framtíðar möguleikum okkar til glæsilegrar uppbyggingar í Vatnsmýrinni. Samkvæmt því verður þetta framtíðar byggingarland í hjarta borgarinnar einungis flugbrautir enn um sinn - e.t.v.í áratugi. Til hvers var samkeppnin um skipulag Vatnsmýrarinnar ? Það hefði að sjálfsögðu átt að kynna tillögurnar og þá möguleika sem þær sýna rækilega, en þess var gætt að pakka sýningu þeirra snarlega niður.

  Nú tuðar þykjustu borgarstjórinn um að könnunin sýni traust borgarbúa á honum sjálfum. Guð sé oss næstur!  Könnunin sýnir ekki annað en afleiðingar af vingulshætti stjórnmálamanna í borginni. Þeir hafa ekki haft döngun til þess að taka af skarið og leggja fram ákveðnar tillögur að uppbyggingu í Vatnsmýri til að tryggja eðlilega þróun höfuðborgarinnar. Tala fyrir þessu stóra máli af krafti og einurð. Ákveða staðsetningu nýs flugvallar á Lönguskerjum og gera borgarbúum grein fyrir  þeim stórkostlegu möguleikum sem þarna felast.

 Í stað þess að standa þannig í lappirnar með hagsmuni umbjóðenda sinna, borgarbúa, að leiðarljósi hafa borgarfulltrúar látið hina og þessa stjórnmálamenn af landsbyggðinni rugla sig og afvegaleiða í málinu. Hún er okkur dýr þessi furðulega og fráleita sektarkennd gagnvart landsbyggðinni.

Sennilega álykta margir borgarbúar sem svo að skást muni að hafa flugvöllinn bara áfram á sama stað enda ekki að vita hverjar afleiðingar ráðleysi og hringlandaháttur borgarfulltrúanna geti haft.

17.05.2008

Skrípalæti í Tjörninni

  Nýkominn til byggða úr hálendisferð, þar sem ekki var legið yfir fréttum, rak mig í rogastans er við blasti húskofi úti í Reykjavíkurtjörn. Hvað í ósköpunum hefur nú gerst, hugsaði ég. Hefur fokið svona rosalega í borgarstjórann ? Ætli húsið hafi verið fyrir flugvellinum ? Nú eða flugstöðinni? Borgarstjórinn bara misst þolinmæðina og sparkað slíkri hindrun úr vegi og skorað langt út í tjörn. Er hann ekki í Val eða Víkingi eða allavega einhverju sparkliði ?

 Fljótlega fékk ég þó að vita hvernig í málinu liggur. Þetta er listaverk, fyrirgefið þið - það hefði mér aldrei dottið í hug - sem sagt innsetning og kallast Atlantis.

 Mér finnst hin rétta skýring á fyrirbærinu ekki hóti skárri en vitleysan sem mér datt í hug í fyrstu. Ekki væri fólki í Burma nýlunda að húsum á floti og ekki vantar skökk og brotin hús á hamfarasvæði í Kína. Kannske sjá ekki allir samhengið en í hverjum fréttatíma þessa dagana fáum við að sjá afleiðingar hrikalegra náttúruhamfara. Fréttamyndir af fólki í skelfilegum aðstæðum. Fólki sem flýtur deyjandi á braki úr húsum sínum. Lifandi fólki með brostinn svip við rústir hruninna húsa. Þetta er í alvöru og við sjáum það á skjánum daglega.

 Þessi smáborgaralegu skrípalæti í tjörninni eru hjákátleg og  heimsendaáróðurinn tilgerðarlegur.

 Það hefði verið betur viðeigandi að gera bara verkið í tölvu; mynd af húsi á floti. Síðan hefði mátt prenta þetta út á sæmilega stórt blað, ramma verkið inn og hengja upp í Ráðhúsinu.Það hefði getað fengið heitið:,,Bjánagangur, hús á floti í Reykjavíkurtjörn".

 Flottast hefði svo verið að festa við verkið eftirfarandi tilkynningu ásamt kvittun: Upphæð sem nam kostnaði við að raungera verkið var gefin Rauðakrossinum til hjálparstarfs í Asíu.