Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

21.10.2007

Óbugaður er hann Jón



Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins og iðnaðarráðherra í nokkrar vikur, er brattur og fer mikinn í blaðaviðtali nú nýlega. Í viðtalinu  ræðir hann OR/Rei málin og sakar borgarfulltrúa um vanþroska og reynsluleysi, jafnframt  þykist hann sýna slíkum veikleikum skilning af sín mikla mannviti. 

Manni gæti nú hafa dottið í hug að nefndur Jón væri í nokkrum vafa um eigið ágæti sem stjórnmálamaður eftir þá hrakför sem hann fór sem flokksformaður. Jafnvel að hann væri dálítið fýldur yfir því að hafa látið Halldór flokkseiganda etja sér á foraðið eins og .... En ekki hann Jón, framsóknarmaðurinn skyldurækni. Hrokinn og rembingurinn  er á sínum stað, beturvitinn - bestvitinn öllu heldur, í toppi. Þetta var gott  og gleðilegt að sjá, það er svo sorglegt þegar fólk er brotið og bugað. Ég segi bara húrra fyrir Jóni.  Ljóst er að framsóknarforustan á í honum óbilaðan stríðsmann þrátt fyrir allt sem á undan er gengið; ef frammundan er kelda, kallið á hann Jón.

18.10.2007

Lausnir í húsnæðismálum.

Nú þegar nýr meirihluti tekur við hér í borginni, ríkir mikið ófremdar ástand í húsnæðismálum - sumir segja neyðarástand.

Ég legg til eftirfarandi aðgerðir:

    Hin nýja félagshyggjustjórn beiti sér fyrir því, í samvinnu við félagsmálaráðherra, að verkamannabústaða kerfið verði tekið upp aftur og þá með breyttu fyrirkomulagi og undir öðru heiti. Kerfið þarf m.a. að vera opið öllum til að eignast sína fyrstu íbúð. Í endurreistu kerfi ætti ekki að bjóða upp á strípaðar blokkaíbúðir með fátæktarstimpli, heldur fjölbreytt bústaðaform, s.s. raðhús, einbýli og vönduð fjölbýlishús.
Þetta er vafalaust einhver öflugasta aðgerð sem stjórnvöld geta gripið til í þágu almannahagsmuna í húsnæðismálum.

    Auka stórlega við leiguhúsnæði í borginni. Átt er við raunverulegt leiguhúsnæði fyrir venjulegt fólk, sem sem þarf á slíkum valkosti að halda til lengri eða skemmri tíma. Hvað er að búsetakerfinu, af hverju er það í lamasessi ? Úr því þarf að bæta.

    Ýta undir og greiða fyrir því að félög og hópar einstaklinga stofni byggingafélög. Það fyrirkomulag reyndist mjög vel. Í byggingafélögum var yfirleitt haldið vel og skynsamlega á málum enda menn að vinna þar sjálfum sér.

    Að sjá til þess að einstaklingar sem vilja byggja sjálfir eigi þess kost að fá lóðir.
Nægjanlegt framboð lóða og eðlileg verðlagning þeirra er ein af forsendunum fyrir heilbrigðum fasteignamarkaði.

    Stjórnvöld tryggi langtíma fjármögnun íbúðarhúsnæðis og þar með að kjör séu viðráðanleg fyrir meðaltekju og lágtekju fólk.

Eitthvað af þeim milljörðum sem fyrirhugað er að græða á sölu þekkingar frá OR gætu, er fram líða stundir, ávaxtast í byggingasjóði.

Það er samkomulag um vissa grunnþætti velferðarkerfisins. Þjóðin treystir ekki markaðsöflunum fyrir rekstri heilbrigðis og menntakerfis heldur setur þeim skorður til að tryggja jafnan aðgang fólks án tillits til efnahags. Það er félagshyggja í reynd.

Húsnæði heyrir einnig til grunnþarfa hverrar fjölskyldu. Þess vegna getum við ekki lengur látið hinum villtu markaðsöflum einum eftir að sjá fyrir þeirri þörf. Við erum búin að reyna það. Við höfum látið markaðsöflin einráð um húsnæðismálin undanfarin ár með þeim afleiðingum að komið er í mikið óefni. Við því þarf félagshyggjustjórnin að bregðast. Látum hin óheftu markaðsöfl um markhópinn sem er að kaupa þakíbúðirnar í Skuggahverfi og aðrar álíka eignir. Það er gott mál.

En Jón og Gunna, sem aka strætó, smíða húsin, afgreiða í búðunum, vinna á sjúkrahúsunum og gera svo ótal margt, þau þurfa líka að kaupa íbúð þótt í öðrum verðflokki sé. Þau eru engir aumingjar eða þurfalingar, það þarf ekki að gefa þeim neitt. Þau eru fókið sem ekki er í neinu gróðabralli en vinnur sín störf, fær greitt samkvæmt umsömdum launatöxtum og skilar sköttunum undanbragðalaust. Þau eiga hreinlega kröfu til þess að þeim sé tryggð eðlileg og raunhæf fjármögnun á húsnæðiskaupum.

16.10.2007

Húsnæðisokur.

Húsnæðisverð er alveg farið úr böndunum í Reykjavík. Það fjarlægist stöðugt kaupgetu venjulegs launafólks. Í dag hefur eitt blaðið eftir formanni félags fasteignasala að íbúðir á verðbilinu 35 - 45 milljónir séu ekki lúxus heldur venjulegar fjölskylduíbúðir. Víst er að margir hafa efni á að kaupa á því verði - sem betur fer. En hópurinn sem situr eftir er stór og fer stækkandi. Húsnæðiskaup upp á 20  - 30 milljónir reynast mörgum ofviða.

Nauðungaruppboðum fer nú fjölgandi samkvæmt fréttum.

Einn þáttur málsins er svo óhæfileg álagning byggingafyrirtækjanna. Þeir sem gera sér grein fyrir þeim mun sem orðinn er á framleiðsluverði t.d. blokkaríbúðar og söluverði hennar, kyngja slíku okri nauðugir.

Hafa ber í huga að eigið húsnæði er reglan hér á landi. Almennur leigumarkaður er nánast ekki til í Reykjavík. Íbúðir sem einstaklingar eru að leigja út eru ekki til þess ætlaðar enda oft á söluskrá en leigðar til bráðabyrgða eitt ár í senn. Leigutaki í slíku húsnæði á heimili sitt í stöðugu uppnámi og þarf e.t.v. að flytja árlega. Börn í þeim aðstæðum - og þau eru allt of mörg- geta þurft að skipta um skóla hvað eftir annað. Þó neyðist fólk til að sæta þessum afarkostum og greiða fyrir óöryggið háa leigu sem betur væri varið í afborgun af kaupverði íbúðar. En úrborgunin í yfirverðlagðri íbúð er sá þröskuldur sem reynist mörgum óyfirstíganlegur.

Húsnæðismál í Reykjavík eru því verðugt umhugsunarefni fyrir það vaska unga fólk sem nú hefur tekið að sér stjórn borgarinnar og lýsir því yfir að félagshyggjan hafi tekið hér völdin. Getur nýr meirihluti ráðið einhverju um húsnæðisverð í borginni ? Í næst pistli verða nefndar nokkrar mögulegar ráðstafanir til að hafa áhrif á fasteignaverð í borginni. Nú læt ég nægja að fjalla um framboð og verðlagningu á lóðum:

R-listinn gerði á sínum tíma afdrifarík mistök er hann efndi til uppboðs á lóðum eftir að hafa með lóðaskorti byggt hér upp gríðarlega eftirspurn eftir lóðum. Þetta var afleitt fordæmi sem hefur átt sinn þátt í þróuninni síðan. Framhaldið hefur orðið það að sveitarfélög reyna nú eftir föngum að pressa út sem hæst verð fyrir lóðir. Auðvitað er Reykjavík þar í fararbroddi. Engum þurfti að detta í hug að íhaldið, með fulltyngi eins framsóknarmanns, myndi lagfæra mistökin. Í verði hverrar blokkaríbúðar - eins hólfs í steinkassa - er nú lóðarverð upp á nokkrar milljónir króna. Við verðlagningu lóða virðist nú horft framhjá því að sveitarfélagið mun innheimta gjöld af fasteignum sem þar rísa í áratugi - eða aldir.

Félagshyggjustjórnin sem tekin er við í Reykjavík getur byrjað með því að gjörbreyta stefnunni í lóðamálum.

Meira um það næst.

15.10.2007

Borgarstjóri veginn.

  Í fréttum í gær, þ.14. okt. var haft eftir hinum fráfarandi borgarstjóra, Vilhjálmi,  að hann reikni ekki með því að fulltrúar okkar í OR. hafi almennt lesið samning sem skuldbindur fyrirtækið í 20 ár. Sjálfur hafi hann ekki ,, lesið samninginn í gegn" áður en hann staðfersti hann.  Mér finnast þessi ummæli hreint ótrúleg. Ég ætla rétt að vona að ályktunin sé röng og að Vilhjálmur sé einn um það að undirrita samninga fyrir okkar hönd án þess að hafa lesið þá.

Annars er þetta mál einnig sorgarsaga sé litið á mannlega þáttinn. Það er  óþarfi að efast um að Vilhjálmur sé um margt vel meinandi maður, en skyndilega er hann  heillum horfinn og rammflæktur í eigin klúður. Hann fer nú frá með morðkuta ,, samherja sinna" í bakinu.