Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

06.02.2009

Það mátti reyna.


Gott að heyra að fjármálaráðherra gerir athugasemd við ráðningu Ásmundar Stefánssonar sem bankastjóra Landsbankans án auglýsingar. Það eru einmitt svona vinnubrögð; að menn ráði sig sjálfir í feit embætti eða sé úthlutað slíkum stöðum svona milli vina, sem við ætlum ekki að líða lengur. Það skiptir engu þótt Ásmundur kunni að vera brúklegur sem bankastjóri og kunni jafnvel að verða valinn úr hópi umsækjenda eftir að staðan hefur verið auglýst.
Svona aðferðir eiga að heyra fortíðinn til.

03.02.2009

Fjölhæf ríkisstjórn

Í fréttum kvöldsins kom fram að ráðherrar í hinni nýju ríkisstjórn hafa ólíkar skoðanir á  a.m.k. þremur málum sem virðast hafa verið til umræðu á fundi stjórnarinnar í dag.

Steingrímur vill ræða hugsanlega samninga við Norðmenn um sameiginlega gjaldmiðil. Jóhanna forsætisráðherra segir ekki þörf á því. Forseti Alþingis, Guðbjartur Hannesson, vill láta ákvörðun fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, þ.e. að leyfa hvalveiðar standa, telur veiðar eðlilega auðlindanýtingu. Steingrímur gerir sig breiðan og lætur í það skýna að ákvörðun um hvalveiðar kunni að verða dregin til baka. Kolbrún Halldórsdóttir geypar um hugsanlegar álversframkvæmdir við Húsavík og segist ráða þeim málum . Össur bregst við og segir málið á forræði iðnaðarráðherra. Forsætisráðherra setti svo punktinn aftan við þetta þras og úrskurðaði Össuri í vil, sem auðvitað er hárrétt.

Ekki kemur á óvart að Kolbrún Halldórsdóttir er til vandræða í stjórninni þótt bjartsýnt fólk hafi nú líklega ekki búist við að hún yrði svona fljót í gang. Það skondna er svo það - og sýnir flumbrugang ráðherrans - að málið er ekki einusinn á döfinni.

Sem sagt, mismunandi skoðanir upp í a.m.k. þremur málum strax á fyrsta fundi stjórnarinnar. Það er myndarlega af stað farið, menn telja greinilega ekki ráð að láta lengi dragast það sem fram á að koma.

02.02.2009

Skyldulesning



Stundum er tekið þannig til orða um skrif sem teljast sérlega áhugaverð, en einkum þó viturleg, og er þá átt við að það ætti að vera skylda hvers vitiborins manns að kynna sér efnið. Þessu var ég að velta fyrir mér er ég hlustaði á viðtal við hagfræðinginn Gunnar Tómasson í Silfrinu í dag. 

Greinar Gunnars Tómassonar sem öðru hverju hafa birst hér í dagblöðum hafa ávalt verið merkileg innlegg í efnahagsumræðu okkar. Þær ábendingar og viðvaranir sem þar hafa komið fram hafa þó farið sem vindur um eyru fúskaranna sem löngum hafa ráðið málum hér á landi.Við því er að búast því þeir virðast flestir ósnortnir af skynsemi en stýrast af skammtíma klíkuhagsmunum. Þessa fullyrðingu mætti styðja mörgum dæmum, en skilvirkasta leiðin til þess að átta sig á pólitík okkar er að lesa ævisögur og minningar íslenskra sjórnmálamanna. Þær eru til allmargar og eru þörf en hrollvekjandi lesnin. Þar blasir við að þjóðarskútunni hafa löngum stýrt menn sem ekki kunna á kompás. Sumir þessara busa segja sjálfir frá klækjabrögðum sínum og skítaplotti í pólitíkinni, skortir greinilega siðvit til þess að sjá nokkuð bogið við framferðið.

Er hægt að gera sér vonir um að ný ríkisstjórn hafi vilja og burði til þess að leggja grunn að nýju stjórnkerfi fiskveiða ? Ekki gefa undanbrögð og loðin svör Steingríms J Sigfússonar við spurningu um kvótakerfið nú í kvöld miklar vonir um slíkt.

En vonandi hefur helsti varðhundur verðtryggingarinnar á lánum okkar, forseti ASÍ, tekið eftir því sem kollega hans sagði um það lánafyrirkomulag í Silfri Egils í dag.