Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

25.04.2011

Nökkvi Már fermdur.

  Vorum við fermingu í Hólakirkju á skírdag. Hér er fermingardrengurinn, Nökkvi Már, með foreldrum sínum Eyrúnu og Víði og fermingarveislan, sem var meira en flott, að byrja.Þrír ættliðir; Heiðdís, Eyrún og Eydís, heimasætan á Kjarvalsstöðum.Í Hóladómkirkju, sem var vígð 1763, er kórinn rækilega afmarkaður með milligerð eða fagurlega útskornu grindverki. Þar fyrir innan - í kór - sátu betri bændur og fyrirmenni hér á árum áður.
 
Fleiri myndir eru í nýju albúmi ,, Heim að Hólum"  hér á síðunni.


13.04.2011

Evrópsk hugsun?

   Ótrúlegt frumhlaup Guðbergs Bergssonar er hann slóst upp á forsetann með illmælgi í blaðagrein, varð tilefni eftirfarandi hugleiðinga:

  
   Guðbergur telur að við höfum liðið fyrir það að vera um aldir einangruð hér á skerinu frá einhverju sem hann kallar evrópska hugsun. En hvað á Guðbergur við með evrópskri hugsun? Er til einhverskonar samevrópsk hugsun, og hvað felst þá í henni? Veltum því fyrir okkur. Felst í henni siðferðismat fólks sunnan Alpafjalla eða norðan þeirra? Var Helförin sprottin úr  ,,hinni evrópska hugsun" ?

   Um gervalla álfu hinnar klassísku menningar var fólki smalað saman og það flutt í gripavögnum í drápsfabrikkur þar sem milljónir manna; konur með smábörn í örmum sér jafnt sem karlar, voru myrt af verkfræðilegri yfirvegun og stöðugt voru afköst morðiðjuveranna aukin. Það er varla liðinn mannsaldur frá lokum þessa kafla í sögu þess ríkis sem væntanlega telst eitt af burðarríkjum evrópskrar hugsunar  - þetta er bráðnauðsynlegt að muna.

   Voru Sovétríkin grunduð á hinni ,,evrópsku hugsun"? Fasisminn á Ítalíu og á Spáni, og fasismi yfirleitt, hvar er uppruni þeirrar hugmyndafræði?

   Reyndar höfum við Íslendingar ekki farið varhluta af evrópskri hugsun, eða hvar halda menn að hin óhugnanlega refsigleði fyrri alda hafi verið upprunnin?  Stóridómur, galdraofsóknir og allt það brjálæði.

   Bandaríkin eru vissulega víða kámug og hafa staðið fyrir mörgu illu í stjórnmálum heimsins, en þegar þeim er úthúðað í þeim tilgangi að upphefja Evrópu, þá er rétt að minnast þess að tvisvar á síðustu öld þurftu Bandaríkin að koma til og  skera stórveldi Evrópu úr snörunni, hjálpa þeim að ljúka styrjöldum og koma á friði. Hvað hratt þeim styrjöldum af stað? Jú, evrópsk hugsun stóriðjuhölda og bankaauðvalds. 

   

 Guðbergur má auðvitað dásama það sem hann vill dásama og þrútna allur af menningarlegri kveisu þegar hann fær köstin, en ummæli hans um forsetann eru ekkert annað en rógburður og skítug illmælgi. Það er þó til einskis að krefjast ábyrgðar af Guðbergi eða vera vondur við hann. Hann er greinilega stjörnuruglaður um þessar mundir enda fyrir löngu búið að telja honum trú um að hann sé snillingur sem ekki geti slegið feilpúst. Það gerir hann reyndar oft, en elítan harkar af sér og stendur með sínum manni. Og það tíðkast að gapa af aðdáun yfir hverri dellu sem hinn viðurkenndi snillingur frussar út úr sér.

 

   Einkabankar hafa víða um lönd farið á hausinn í gegn um tíðina án þess að rokið hafi verið til og ríkisábyrgð veitt eftirá. Íslendingar neituðu á laugardaginn að veita slíka ábyrgð án þess að úr því verði skorið lögformlega hver skylda okkar kanna að vera. Það ber að þakka forsetanum sem og það, að hann hefur sköruglega útskýrt málstað okkar í erlendum fjölmiðlum. Hann er langöflugasti talsmaður þjóðarinnar í yfirstandandi deilu.

   Viðbrögð hollenskra stjórnvalda við neitun okkar - hótanir um  þvinganir og yfirgang -     eru ekki mjög lögformleg, en gefa athyglisverða vísbendingu um trú þeirra á eigin málsstað. Evrópsk hugsun í  gamla nýlenduveldinu?

  

13.04.2011

Tveir afakútar í heimsóknHaukur Stígsson hefur fengið pollagalla og vill nú helst vera úti og ráða þar sínum ferðum. Að sitja í vagni eða kerru þykir honum ekki eins skemmtilegt og áður.Svo þarf Haukur að máta stýrishúsið sem er á rólóog slappa aðeins af eftir ágætt drullumall.


Svo er náttúrlega gott að fá skólapiltinn Úlf stórabróður til að lesa skemmtilega bók

08.04.2011

Lengi getur vont versnað


   Það færist harka og jafnvel örvænting í málfluttning JÁ- sinna nú síðustu klukkustundirnar fyrir  kosningu. Blaðamaðurinn Jóhann Hauksson er alveg að tapa sér, samanber síðustu pistla hans. Hann hefur reyndar lengi haft harðar hríðir vegna andstöðu þjóðarinnar við Icesave, alveg stórfurðulegt hve lengi manninum getur elnað sóttin. Held það hafi verið í gær sem hann barði saman pistil í DV, greinilega í mikilli geðshræringu, og kynnti þá kenningu sína að NEI-sinnar ætluðu að hefja Davíð Oddsson til valda á ný !  Ekkert minna, bara sækja sjálft voðamennið upp í Hádegismóa og stinga því inn í stjórnarráðið. Nú hefur óttinn við Davíð augljóslega lengi þjakað þennan Jóhanna og það svo mjög að menn hafa velt því fyrir sér hvort hann færi ekki bráðum að leita sér hjálpar við þessum ósköpum. En lengi getur vont versnað, því til sönnunar er geðveikt viðtal í DV í dag við mannvitsbrekkuna Þráinn Bertelsson, þar sem hann tekur upp Davíð til valda-kenninguna og dregur ekki af sér í rógburði um þá sem ekki eru honum sammála um Icesave. 
  
  Vænt þykir mér um að vera ekki skoðanabróðir þeirra félaga og ég tel mér heiður af því að geta tilkynnt eftirfarandi:
 
   Ég hef ákveðið að krossa við nei á morgun; kjósa gegn því að lög nr. 13/2011 haldi gildi. Það hefur reyndar ekki verið einfalt að komast að niðurstöðu í málinu, enda hefur fjöldi mæta einstaklinga -margir sérfróðir um lög, fjármál og hagstjórn - fært fram rök, annarsvegar fyrir samþykkt samningsins og á hinn bóginn á móti samþykkt hans. En eftir að hafa vandlega kynnt mér þessi rök og skoðað allar þær upplýsingar um málið sem verið hafa almenningi aðgengilegar, er það mín niðurstaða að segja nei á morgun  

  

 

   Sleggjudómum um þjóðrembu og heimsku vísa ég til baka - ofan í kok á þeim er svo mæla.