Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

26.04.2009

Að loknum kosningum

Hin merkilegu tíðindi kosninganna eru auðvitað að hér er kominn möguleiki á vinstristjórn tveggja flokka. Með Jóhönnu í forustu vann Samfylkingin ágætan sigur og bætti við sig tveimur þingmönnum. Þar með má segja að lokið sé leiðangri sem lagt var í með hinum tilgangslausu formannsskiptum í flokknum árið 2005. Rétt er þó að muna að við fengum nokkru minna fylgi nú en í kosningunum 2003.

 

Mörgum  finnst að Samfylkingin hafi í kosningabaráttunni sloppið ótrúlega vel frá því að vera kölluð til sinnar ábyrgðar á atburðum liðins hausts. Það hefur verið skýrt með því að flokkurinn hafi svarað ábyrgð með því að slíta samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn og mynda stjórn með V.G. Þáttur flokksforustunnar í aðdaganda þess ferlis er mér ekki vel ljós. En lengi fannst mér reynt að þrauka við hlið hins ráðalausa forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins. Þeim vandræðagangi lauk ekki fyrr en grasrótin tók af skarið á fundinum í Þjóðleikhússkjallaranum og knúði fram stjórnarslit.

 

Össur minnti á stefnu Samfylkingarinnar í kvótamálum í  umræðum í sjónvarpinu í dag. Þar sagði hann að fiskveiðistjórnunarkerfinu yrði nú gjörbreytt og minntist ekkert á samkomulag við stórútgerðina. Þetta var gott að heyra því frambjóðendur okkar héldu almennt ekki mjög á lofti ályktun landsfundar Samfylkingarinnar um innköllun fiskveiðiheimilda í kosningabaráttunni. Inn í þá takmörkuðu umræðu blönduðu menn  jafnvel óraunhæfu tali um að innköllun yrði framkvæmd í samkomulagi við handhafa kvótans.

 

Áframhaldandi samstarf Samfylkingar og V.G. verður að takast. Það má ekki gerast að við missum af tækifærinu sem er núna til þess að þróa hér stjórnarfar félagshyggju til frambúðar. Stærð stjórnarflokkanna, með  samtals rúmlega helming kjörfylgis að baki sér, svarar einmitt til fylgis slíkra flokka á Norðurlöndum á síðustu öld. Þeirri sérstöðu okkar að búa við stóran íhaldsflokk á að vera lokið. Hvort svo verður er undir því komið hvernig til tekst um samstarfið. Er fram líða stundir ættu vinstriflokkarnir að renna saman í einn öflugan lýðræðisjafnaðarflokk.  

,,Þetta eru um margt ólíkir flokkar", andmæla menn. En við þurfum einmitt að læra að höndla skoðanabreidd í flokki. Það er eina leiðin til þess að  stór flokkur geti staðist til frambúðar.

 

 

24.04.2009

Er einfalt að taka upp Evru ?

Enn gerist það að maður sem ekki verður með réttu talinn neinn ómerkingur þegar um efnahagsmál er að ræða, bendir á leið í gjaldmiðilsmálum sem ríkisstjórnin hefur lýst ófæra. Hverju eigum við að trúa? Ég trúi a.m.k. ekki á hreinskilni stjórnmálamanna okkar. 

 

Fréttablaðið, 24. apr. 2009 06:00

Besti gjaldmiðillinn fyrir Ísland

Manuel Hinds

Manuel Hinds skrifar um einhliða upptöku evru

Ég heimsótti Ísland í ágúst árið 2007 og lagði til einhliða upptöku evru til að forða landinu frá hugsanlegu fjárhagslegu skipbroti. Upptaka evru hefði ekki minnkað skuldir þjóðarbúsins, sem voru þegar orðnar alltof miklar - um 180 prósent af vergri landsframleiðslu. Hins vegar hefði upptaka evru komið í veg að skuldirnar ykjust við gengisfall. Á þeim tíma kostaði ein evra 75 krónur. Í dag kostar evran 167 krónur hjá Seðlabanka Íslands, en 250 krónur í Lundúnum. Skuldabyrðin - það er sú vinna sem Íslendingar þurfa að leggja á sig til að standa skil á skuldum sínum í evrum - tvö- til þrefaldaðist á tímabilinu. Íslendingar reyna nú að afla tekna til að geta staðið undir skuldum sem eru hærri en því sem nemur heildartekjum þjóðarinnar. Við slíkar aðstæður þyrftu stýrivextir að vera lágir til að létta undir greiðslubyrðinni. Það er hins vegar ekki þar sem Ísland er jafnframt að reyna að halda krónunni á floti - sem krefst stýrivaxta sem eru með þeim hæstu í Evrópu. Og sú hætta er enn til staðar að krónan hrynji aftur og auki þannig enn frekar á skuldir þjóðarbúsins.Þeir sem verja krónuna benda á að veik króna stuðli að auknum útflutningi. En fyrir meðal Íslendinginn er lítið gagn að auknum útflutningi, ef það útheimtir meiri vinnu fyrir sama eða minna verð í evrum talið.
Eftir að hafa valdið mestu efnahagskreppu í sögu landsins er krónan enn dýrasti skaðvaldurinn á Íslandi. Hagstæðasti gjaldmillinn fyrir Ísland er evran, sem hefði í för með sér lægri stýrivexti og myndi skapa þann stöðuleika sem Ísland þarf á að halda til að geta rétt úr kútnum.

Evrópusambandið kallar það vitleysu að vilja taka upp evru án undangenginni aðild að ESB. Sú fullyrðing er bull. Evran er á ábyrgð Seðlabanka Evrópu, en þeir sem hafa hana undir höndum geta notað hana til að greiða skuldbindingar og geyma verðmæti eins og þeim hentar, bæði alþjóðlega og innanlands. Ísland þarf ekki leyfi frá ESB til að taka upp evru. Því fyrr sem Ísland gerir það þeim mun betra.


Höfundur er er ráðgjafi hjá AGS og fyrrverandi fjármálaráðherra El Salvador þar sem hann framkvæmdi einhliða upptöku dollars.

 

 

15.04.2009

,, Hagfræði andskotans"

Ekki er uppbyggilegt að fylgjast með störfum Alþingis nú um stundir. Þar tuða Sjálfstæðismenn, bulla og veita andsvör öðru sinni, til þess eins að eyða tímanum. 

Þetta er fáfengilegt. Enn verra er þó að við vitum sáralítið um hvað er að gerast í hinum stóru málum í kjölfar hrunsins. Það er vond tilfinning.

Við vitum í raun  ekkert hvað alþingismennirnir eru að gera í þeim efnum. Við vitum enn ekki hve stór skuldabagginn er sem á okkur hefur verið lagður. Við vitum ekki heldur hversu stór hluti kvótans er nú þegar á forræði þjóðarinnar á ný, í gegn um bankana. Við vitum ekki hvað ,,samkomulagið" við  Alþjóðagjaldeyrissjóðinn felur í sér vegna þess að stjórnmálamennirnir hafa ekki enn upplýst okkur um það. Það var óhæfa og voðaverk gegn lýðræðinu að keyra málið í gegn án þess að ræða samninginn efnislega  á Alþingi. Þjóðin getur ekki vitað hvort samningurinn við AGS var stór mistök eða eina leiðin til bjargar. Til þess hefur hún ekki fengið upplýsingar. En við höfum við fengið viðvaranir úr ýmsum áttum sem ekki eru hughreystandi.

 

 

 

Lítil hugvekja fyrir þá stjórnmálamenn sem hanga á verðtryggingunni eins og hundar á roði, fengin að láni úr Fréttablaðinu:

 

Hagfræði andskotans

Gunnar tómasson

Gunnar Tómasson skrifar:

Verðbólga rýrir raunvirði peninga og því finnst mörgum verðtrygging peningaskulda vera réttlætismál. "Ef maður lánar öðrum manni tíu hesta þá vill hann fá tíu hesta til baka, en ekki sjö," er haft eftir Guðmundi Ólafssyni hagfræðingi á vefnum.

Hann er sagður vera "harður á því að ef maður fær lánaðan kaffipakka þá eigi maður að skila kaffipakka til baka. Það sé ekki hægt að koma með pakkann og segja að kíló af kaffi í gær jafngildi pundi af kaffi í dag. Þetta er laukrétt," bætir sá við sem segir frá.

Þetta er rugl - einum hesti verður ekki umbreytt í stóð né kaffipakka í skipsfarm af kaffi með einfaldri tölvufærslu líkt og dugar til að margfalda nafnvirði peninga í hagkerfinu. Skipsfarmur af framleiðsluvörum getur týnst í hafi en pappírsauður getur horfið eins og dögg fyrir sólu sbr. hlutafé í íslenzku bönkunum í byrjun október 2008. Vitræn umræða um verðtryggingu krefst þess að raunverðmætum sé ekki jafnað til ávísana á verðmæti - að hestum og kaffi sé ekki jafnað til peninga/ávísana á hesta og kaffi.

Í markaðshagkerfum eru peningar skuldaviðurkenning sem atvinnurekendur láta í hendur þeim sem leggja fram vinnuafl og önnur aðföng til framleiðslustarfsemi. Stöðugt verðlag tryggir hinum síðarnefndu jafngildi slíkra aðfanga í mynd framleiddrar vöru og þjónustu. Við íslenzkar aðstæður, þar sem nýsköpun peninga utan framleiðslugeirans hefur leitt til umframeftirspurnar á framleiðslumarkaði um árabil, rýrir verðbólgan eignarhluta þeirra sem lagt hafa fram aðföng til framleiðslunnar.

Það er því hagfræði andskotans, sem svo kallast, að segja það vera réttlætanlegt að láta þá sem sætt hafa upptöku eigna á þennan hátt greiða verðtryggingu á útistandandi skuldum - og bera þannig tvöfaldan skaða meðan lánardrottnar þeirra bíða einungis einfaldan skaða.

Höfundur er hagfræðingur.

14.04.2009

Eldur og brennisteinn

 

 

Það er brýnt að minna á og halda á lofti hinni merku ályktun landsfundar Samfylkingarinnar, þ.e.  að innkalla fiskveiðiveiðiheimildirnar svo fljótt sem verða má og að hámarki á 20 árum. Og það þarf greinilega að gæta þess að þingmenn fari ekki að búa til einhverjar útfærslur sem engin samþykkt er fyrir. Svo sem eins og að innkalla eigi viðiheimildirnar í samkomulagi við handhafa þeirra. Í samþykkt landsfundarins er ekki orð um slíkt samkomulag, enda um raunhæfa samþykkt að ræða. Það er alveg ljóst að frambjóðendur okkar eru misjafnlega áhugasamir um að fara í þá baráttu sem búast má við að fylgi innköllun kvótans. En ef einhverjir þeirra trúa því í alvöru að um samkomulag við stórútgerðina geti verið að ræða, þá ættu þeir endilega að taka upp símann og hringja t.d. í Magnús Kristinsson, útgerðarmann í Vestmannaeyjum, og biðja hann um tillögur að samkomulagi um hvernig hann skili inn kvótannum á næstu árum. Það á eftri að rigan eldi og brennisteini, en engum samkomulagsvilja, frá þessu sérhagsmunaliði áður en því verður komið niður á jörðina.

 

05.04.2009

,,Eineygði skoski hálfvitinn".

,,Eineygði skoski hálfvitinn " ásamt dillibossanum, Darling,

 fer fyrir efnahagslegri herferð á hendur Íslendingum. Þetta kemur fram í grein eftir hagfræðiprófessorinn Michael Hudson, sem birtist í Fréttablaðinu sl. laugardag. 

Ætla verður að Hudson þessi viti hvað hann segir, en hann er sagður sérfræðingur í alþjóðastjórnmálum sem verið hefur ráðgjafi  Hvíta hússins, bandaríska innanríkisráðuneytisins, varnarmálaráðuneytisins ofl. Í greininni er ekki skafið utan af hlutunum og íslensku þjóðinni ekki spáð glæsilegri framtíð á grundvelli þeirra ráða sem stjórnvöld okkar hafa valið til að takast á við afleiðingar bankahrunsins. Hudson varar sérstaklega við samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og segir ma í grein sinni: 


,, Ísland hefur orðið fyrir árás - ekki hernaðarárás, heldur fjármálaárás. Afleiðingarnar eru jafn banvænar þrátt fyrir það. Fleiri verða veikir, lifa í örvæntingu og deyjam fyrir aldur fram ef þjóðin neitar ekki að greiða til baka megnið af þeim lánum sem prangað hefur verið inn á hana á síðustu átta árum. En leiðin til bjargar er þyrnum stráð. Voldugir skuldunautar(*1) á borð við Bandaríkin og Bretland munu siga áróðursmeisturum sínum, sem og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum, á Íslendinga og krefjast þess að þeir verði hnepptir í skuldafangelsi með því að þvinga þá til að greiða skuldir sem þessar þjóðir mundu aldrei greiða sjálfar.

Til að komast úr skuldafeninu verða Íslendingar að átta sig á hvers konar efnahagsástand sjálfseyðingar íslenskir bankamenn hafa skapað. Þrát6t fyrir að hafa eytt nærri hálfri öld í að rannsaka þjóðir í erfiðri skuldastöðu hef ég sjaldan eða aldrei séð neitt í líkingu við ástandið á Íslandi. Hér á landi hafa bankarnir steypt sér í svo gríðarlegar skuldir að verðgildi krónunnar mun rýrna til frambúðar ogm leiða af sér verðbólgu næstu áratugina".

 

Eftir nánari útlistun á ástandinu hér segir Hudson seinna í greininni:   

,, Lausn nýfrjálshyggjunnar á þessu vandamáli er að selja eignir með gríðarlegum afföllum til alþjóðlegra arðræningja og brjóta niður félagslegt kerfi þjóða, einmitt þegar þær þurfa mest á því að halda.Þetta gildir þó aðeins um litlu þjóðirnar. Þær þjóðir sem hæst hrópa á Íslendinga að greiða lán spákaupmannanna eru undanskildar.

 

Þar eru fremstar í flokki þær þjóðir sem eru skuldsettastar, Bandaríkin og Bretland, undir stjórn manna sem aldrei dytti í hug að leggja slíkar byrðar á eigin þegna.

Um leið og þessar þjóðir lækka skatta og auka fjárlagahallann reyna þær að kúga peninga út úr smærri og veikburða þjóðum, líkt og þær stunduðu gagnvart Þriðjaheimsríkjum á 9. og 10. áratug síðustu aldar".

(*1) Hér hlýtur að vera átt við lánadrottna.

 

Á sama tíma berst okkur önnur viðvörun, einnig frá manna sem einnig verður að teljast dómbær á umræðuefnið. Hér er tilvitnun tekin af síðu RÚV:

 

,, Versnandi staða Landsvirkjunar getur verið ávísun á sölu íslenskra auðlinda til stórfyrirtækja og Ísland á að forðast allt samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þetta segir John Perkins, fyrrverandi efnahagsböðull, sem vann við að gera nauðasamninga við ríkisstjórnir þriðja heims ríkja.

John Perkins er höfundur bókarinnar The Confessions of an economic hit man en í henni segir hann frá reynslu sinni þegar hann starfaði sem svokallaður efnahagsböðull fyrir bandarísku þjóðaröryggisstofnunina. Þar vann hann við að gera nauðarsamninga við ríkisstjórnir þriðja heimsríkja til að knésetja þær svo bandarísk stórfyrirtæki ættu greiðan aðgang að auðlindum þeirra. Perkins horfir í þessu sambandi til versnandi fjármögnunarstöðu Landsvirkjunar en undanfarið hafa fjármögnunarmöguleikar fyrirtækisins verið metnir litlir sem engir og staða fyrirtækisins því erfið eða slæm að mati fjárfesta.

Perkins segir þetta er ótrúlega sorglegt og fyrirsjáanlegt. Náttúrulegar orkulindir séu mestu auðlindir Íslendinga og stór áliðnaðarfyrirtæki hafa komið hingað til lands til að notfæra sér það. Hann segir algjörlega fáránlegt að ríkisrekið orkufyrirtæki tapi peningum. Þar með séu Íslendingar ekki aðeins að gefa auðlindir til erlendra stórfyrirtækja heldur tapa gríðarlegum fjármunum. Perkins spyr hvort það myndi ekki gangast Íslendingum betur að nota náttúrulegu orkuna til að hita upp stór gróðurhús til matvælaframleiðslu. Þessi þróun sé alveg dæmigerð þegar svokallaðir efnahagsböðlar komi til sögunnar. Og með aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, verður ástandið aðeins verra. Perkins segir að alþjóðlegar lánastofnanir taki þátt í leiknum af fullum krafti og varar sterklega við Alþjóðagjaldeyrissjóðnum".

Getum við annað en velt því fyrir okkur hvort stjórnvöld hafi hlaupið á sig er þau leituðu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ?

 

04.04.2009

Misskilningur Agnesar

Agnes Bragadóttir sagði í útvarpsþætti í dag að hún byggist við að Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, hlyti flengingu á næstunni. Virtist hlakka mjög í blaðakonunni skeleggu við tilhugsunina um þá hirtingu sem Darling ætti í vændum. Ég er því miður hræddur um að þetta sé á misskilningi byggt hjá Agnesi, mig grunar nefnilega að Darling þessi njóti þess að vera hýddur á beran gumpinn. Maðurinn er verulega dillibossalegur að sjá sem minnir oss á þá staðreynd að nautnalíf breskra stjórnmálamanna hefur oft þótt bæði skrautlegt og skemmtilegt