Jón í Neslöndum og fleiri góðir.    

12.09.2011

Þrjár greinar um húsnæðismál

 

 

 

Formáli í febrúar 2017

Eftirfarandi pistlar um húsnæðismál  voru skrifaðir árið 2007. Vandamál sem þar er lýst eru í grunninn þau sömu í dag, 10 árum seinna. Pistlarnir fjalla um stöðu fólks á húsnæðismarkaði, verðlagningu húsnæðis og samkeppni á húsnæðismarkaði, sem aldrei er til staðar a.m.k. ekki í Reykjavík. Vakin var athygli á því að ekkert virtist reynt að sporna við verðhækkunum á húsnæði. Annað á við um matvælaverð, það er stöðugt til umræðu og reynt er að hemja hækkanir með verðkönnunum og samanburði.

Á bólutímum var hægt að fá lán, auðvitað á forsendum lánastofnana, sem vildu slátra Íbúðalánasjóði.  Menn tóku lán og létu hátt verð og glannaleg lánskjör ekki stöðva sig í húsnæðiskaupum - með þekktum afleiðingum.

Nú er staðan þannig að segja má að lokað sé fyrir lánveitingar til annarra en þeirra sem ekki þurfa lán.  Fólk sem býr við okurleigu og sannar greiðslugetu sína með því að greiða mánaðarlega háar upphæðir, stenst ekki greiðslumat hjá bönkunum. Það er eins og verðlagning á húsnæði sé undanþegin gagnrýni; þar eigi markaðurinn einn að ráða. En það er ekki almennir íbúðakaupendur sem standa undir verðmyndun á húsnæði á Reykjavíkursvæðinu heldur leigufélög fjársterkra aðila, lífeyrissjóðir og aðrar fjármálastofnanir. Það má segja að markaðurinn sé uppsprengdur og rammskakkur þegar tilboð hans eru ekki í samræmi við almenna kaupgetu.

Það er borðleggjandi verkefni fyrir jafnaðarmannaflokk að bregðast við þessu ástandi. Ég legg því til að þegar verði hafin vinna á vegum flokksins við smíði nýrrar húsnæðislöggjafar. Málið verði grundvallarmál flokksins í næstu kosningabaráttu.

Nokkur lykilorð:

Nýr lánasjóður með ríkisábyrgð sem tryggir viðráðanlega langtíma fjármögnun.

Sérkjör við kaup fyrstu íbúðar.

Nýtt búsetukerfi, opið öllum, setur markaðnum  verðviðmið.

Stuðningur við byggingasamvinnufélög.

Stuðningur við leigufélög sem festa leiguverð við tiltekna vísitölu.

 

 

 

 

Húsnæðisokur

   Húsnæðisverð er alveg farið úr böndunum í Reykjavík. Það fjarlægist stöðugt kaupgetu venjulegs launafólks. Í dag hefur eitt blaðið eftir formanni félags fasteignasala að íbúðir á verðbilinu 35 - 45 milljónir séu ekki lúxus heldur venjulegar fjölskylduíbúðir. Víst er að margir hafa efni á að kaupa á því verði - sem betur fer. En hópurinn sem situr eftir er stór og fer stækkandi. Húsnæðiskaup upp á 20 - 30 milljónir reynast mörgum ofviða.

   Nauðungaruppboðum fer nú fjölgandi samkvæmt fréttum.

Einn þáttur málsins er óhæfileg álagning byggingafyrirtækjanna. Þeir sem gera sér grein fyrir þeim mun sem orðinn er á framleiðsluverði t.d. blokkaríbúðar og söluverði hennar, kyngja slíku okri nauðugir.

   Hafa ber í huga að eigið húsnæði er reglan hér á landi. Almennur leigumarkaður er nánast ekki til í Reykjavík. Íbúðir sem einstaklingar eru að leigja út eru ekki til þess ætlaðar enda oft á söluskrá en leigðar til bráðabirgða eitt ár í senn. Leigutaki í slíku húsnæði á heimili sitt í stöðugu uppnámi og þarf e.t.v. að flytja árlega. Börn í þeim aðstæðum - og þau eru allt of mörg- geta þurft að skipta um skóla hvað eftir annað. Þó neyðist fólk til að sæta þessum afarkostum og greiða fyrir óöryggið háa leigu sem betur væri varið í afborgun af kaupverði íbúðar. En úrborgunin í yfirverðlagðri íbúð er sá þröskuldur sem reynist mörgum óyfirstíganlegur.

   Húsnæðismál í Reykjavík eru því verðugt umhugsunarefni fyrir það vaska unga fólk sem nú hefur tekið að sér stjórn borgarinnar og lýsir því yfir að félagshyggjan hafi tekið hér völdin. Getur nýr meirihluti ráðið einhverju um húsnæðisverð í borginni ? Í næst pistli verða nefndar nokkrar mögulegar ráðstafanir til að hafa áhrif á fasteignaverð í borginni. Nú læt ég nægja að fjalla um framboð og verðlagningu á lóðum:

   R-listinn gerði á sínum tíma afdrifarík mistök er hann efndi til uppboðs á lóðum eftir að hafa með lóðaskorti byggt hér upp gríðarlega eftirspurn eftir lóðum. Þetta var afleitt fordæmi sem hefur átt sinn þátt í þróuninni síðan. Framhaldið hefur orðið það að sveitarfélög reyna nú eftir föngum að pressa út sem hæst verð fyrir lóðir. Auðvitað er Reykjavík þar í fararbroddi. Engum þurfti að detta í hug að íhaldið, með fulltyngi eins framsóknarmanns, myndi lagfæra mistökin. Í verði hverrar blokkaríbúðar - eins hólfs í steinkassa - er nú lóðarverð upp á nokkrar milljónir króna. Við verðlagningu lóða virðist nú horft framhjá því að sveitarfélagið mun innheimta gjöld af fasteignum sem þar rísa í áratugi - eða aldir.

   Félagshyggjustjórnin sem tekin er við í Reykjavík getur byrjað með því að gjörbreyta stefnunni í lóðamálum.

Meira um það næst.

Skrifað af Haukur Br.

 

 

 

 

11.11.2007 00:41

Verðsamráð á húsnæðismarkaði ?

   Má íbúðarhúsnæði kosta hvað sem er ? Mega byggingarverktakar og seljendur húsnæðis haga sér eins og þeim sýnist ? Hvar er ASÍ með sitt verðlagseftirlit og hvar er samkeppniseftirlitið þegar kemur að verðlagningu íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu ? Þegar litið er á raun byggingarkostnað annarsvegar og söluverð hinsvegar er alveg ljóst að um hreint okur er að ræða hér í Reykjavík. Þetta sést berlega er húsnæðisverð á öðrum svæðum er borið saman við Reykjavík. Víða þar sem eftirspurn er minni er verðið nær framleiðslu kostnaði og álagning eðlileg. Þetta eru auðvitað ekki nýjar fréttir, hér eru maðrkaðslögmálin að verki, segja menn. Ekki er þó allt sem sýnist í þeim efnum, það eigum við eftir að sjá þegar hægir á eftirspurn, sem er fyrirsjáanlegt. Markaðslögmálin margnefndu virka einkum á annan veginn, eða halda menn að húsnæðisverð muni stórlækka hér í Reykjavík þegar dregur úr eftirspurn ? Það mætti ætla, því nú þegar er offramboð af húsnæði í Reykjavík og nágrenni. Það mun þó ekki gerast, verðinu verður haldið uppi og íbúðir látnar standa óseldar, bankarnir munu sjá til þess. Gæti það kallast samráð,  ætti samkeppniseftirlitið að skoða málið ? Einhverjir verktakar fara svo á hausinn, sem gerir ekkert til því alltaf má fá nýja kennitölu. Aðalatriðið verður að bíða af sér hretið og lækka ekki verðið sem neinu nemur.

   Virk, heiðarleg samkeppni er okkur sannarlega til hagsbóta. Slíkir viðskiptahættir standa þó veikum fótum og þurfa stöðugrar gjörgæslu við. Gróðamennirnir sem glaðbeittir lýsa því yfir í fjölmiðlum að þeir ,,fagni allri samkeppni" eru svo veikir í trúnni að þeir geta hvenær sem er dottið í pælingar um það hvernig komast megi hjá þessari annars gleðilegu samkeppni.

   Fyrir nokkrum dögum gekk hér mikið á í fjölmiðlum vegna meints verðsamráðs á matvörumarkaði. Við fylgjumst grannt með verðlagi í matvöruverslunum og tíðar verðkannanir sporna við hækkunum á matarverði. Það er samkomulag um það á Alþingi og meðal þjóðarinnar að við látið ekki bjóða okkur hvað sem er þegar kemur að verðlagningu á matvöru. Þetta vekur spurningu um samræmi. Hver einast fjölskylda þarf að tryggja sér húsnæði. Hvers vegna gerum við ekki sömu kröfur um eðlilega samkeppni og hóflega verðlagningu á húsnæði eins og við þó krefjumst þegar um matvöru er að

ræða ?

Stórnmálamennirnir hafa sleppt markaðsöflunum lausum - nánast sigað þeim á húsnæðismarkaðinn. Á þeim vettvangi er ekkert eftirlit og engin viðspyrna við framrás græðginnar. Við slíkar aðstæður slíta businessmenn sér ekki út á samkeppni heldur sameinast í okrinu. Þar bilar ekki samstaðan. Á meðan setja þingmenn á langar tölur um krónu hækkun eða lækkun á vatnsbætta hakkinu sem góði kallinn í Bónus selur okkur. Málefni sem vissulega er allrar athygli vert en er þó smámunir samanborið við ástandið á húsnæðismarkaðnum. Þar er nú svo komið að fólk með meðallaun ræður ekki við að kaupa sér húsnæði.

   Til að bregðast við þessu þarf að endurreisa verkamannabústaðakerfið - en í breyttri og bættri mynd. Hlutverk þess á að vera að láta byggja og hafa til sölu íbúðir á eðlilegu verði. Með eðlilegu verði er átt við raunverulegan byggingarkostnað að viðbættri hæfilegri þókknun til byggingarfélagsins til þess að standa undir kostnaði. Endurreisn félagslegs húsnæðiskerfis myndi leysir úr miklum vanda fjölda fólks. Slíkt kerfi myndi einnig skapa verðviðmið og veita þannig bráðnauðsynlegt aðhald á húsnæðismarkaðnum.

Skrifað af Haukur Br.

 

 

 

 

18.10.2007 00:49

Lausnir í húsnæðismálum.

   Nú þegar nýr meirihluti tekur við hér í borginni, ríkir mikið ófremdar ástand í húsnæðismálum - sumir segja neyðarástand.

Ég legg til eftirfarandi aðgerðir:

    Hin nýja félagshyggjustjórn beiti sér fyrir því, í samvinnu við félagsmálaráðherra, að verkamannabústaða kerfið verði tekið upp aftur og þá með breyttu fyrirkomulagi og undir öðru heiti. Kerfið þarf m.a. að vera opið öllum til að eignast sína fyrstu íbúð. Í endurreistu kerfi ætti ekki að bjóða upp á strípaðar blokkaíbúðir með fátæktarstimpli, heldur fjölbreytt bústaðaform, s.s. raðhús, einbýli og vönduð fjölbýlishús. Þetta er vafalaust einhver öflugasta aðgerð sem stjórnvöld geta gripið til í þágu almannahagsmuna í húsnæðismálum.

    Auka stórlega við leiguhúsnæði í borginni. Átt er við raunverulegt leiguhúsnæði fyrir venjulegt fólk, sem sem þarf á slíkum valkosti að halda til lengri eða skemmri tíma. Hvað er að búsetakerfinu, af hverju er það í lamasessi ? Úr því þarf að bæta.

    Ýta undir og greiða fyrir því að félög og hópar einstaklinga stofni byggingafélög. Það fyrirkomulag reyndist mjög vel. Í byggingafélögum var yfirleitt haldið vel og skynsamlega á málum enda menn að vinna þar sjálfum sér.

    Að sjá til þess að einstaklingar sem vilja byggja sjálfir eigi þess kost að fá lóðir. Nægjanlegt framboð lóða og eðlileg verðlagning þeirra er ein af forsendunum fyrir heilbrigðum fasteignamarkaði.

    Stjórnvöld tryggi langtíma fjármögnun íbúðarhúsnæðis og þar með að kjör séu viðráðanleg fyrir meðaltekju og lágtekju fólk.

    Eitthvað af þeim milljörðum sem fyrirhugað er að græða á sölu þekkingar frá OR gætu, er fram líða stundir, ávaxtast í byggingasjóði.

    Það er samkomulag um vissa grunnþætti velferðarkerfisins. Þjóðin treystir ekki markaðsöflunum fyrir rekstri heilbrigðis og menntakerfis heldur setur þeim skorður til að tryggja jafnan aðgang fólks án tillits til efnahags. Það er félagshyggja í reynd.

   Húsnæði heyrir einnig til grunnþarfa hverrar fjölskyldu. Þess vegna getum við ekki lengur látið hinum villtu markaðsöflum einum eftir að sjá fyrir þeirri þörf. Við erum búin að reyna það. Við höfum látið markaðsöflin einráð um húsnæðismálin undanfarin ár með þeim afleiðingum að komið er í mikið óefni. Við því þarf félagshyggjustjórnin að bregðast. Við getum látið hin óheftu markaðsöfl um markhópinn sem er að kaupa þakíbúðirnar í Skuggahverfi og aðrar álíka eignir. Það er gott mál.

   En Jón og Gunna, sem aka strætó, smíða húsin, afgreiða í búðunum, vinna á sjúkrahúsunum og gera svo ótal margt sem gera þarf, þau þurfa líka að kaupa íbúð þótt í öðrum verðflokki sé. Þau eru engir aumingjar eða þurfalingar, það þarf ekki að gefa þeim neitt. Þau eru fókið sem ekki er í neinu gróðabralli en vinnur sín störf, fær greitt samkvæmt umsömdum launatöxtum og skilar sköttunum undanbragðalaust. Þau eiga hreinlega kröfu til þess að geta keypt húsnæði á réttu verði með eðlilegri og raunhæfri fjármögnun.

Skrifað af Haukur Br.