Enn er ruglað um ísbirni, sumir tjá nú harm sinn vegna dráps á alfriðuðu dýri, eins og sagt er. Sannleikurinn er sá að fella má björn sem gengið hefur á land og fólki eða fénaði er talin stafa hætta af, eins og segir í lögunum. Ísbjörn sem sem kominn er á land, langt frá bráð sinni, sem er selur á ísi, er hættulegur. Þetta vita Grænlendingar, fólk á Svalbarða og aðrir sem til þekkja. Reyndar er það svo að allar þjóðir umhverfis Norðurheimskautið taka sér veiðikvóta á ísbjörn. Seinast er ég vissi var árlegur kvóti Grænlendinga 150 dýr á ári, en talið var að raunveruleg tala felldra ísbjarna í landinu væri 200 dýr. Að krefjast þess að fé sé eytt í að fanga hér flækingsbirni og flytja til baka, á veiðilendur Grænlendinga, er fáránlegt.
Stjórnvöld eru að taka sér vald sem þau hafa ekki samkvæmt lögum ( ekki alveg einsdæmi), er látið er í veðri vaka að ráðherraleyfi þurfi til þess að fella björn sem hér hefur gengið á land. Ákvæði um ísbirni er að finna í 16.gr. veiðilaganna, nr.64 1994.
Takið eftir 3. lið greinarinnar en erfitt er að sjá að annað geti átt við þegar björn hefur gengið á land. Það þarf því ekkert ráðherraleyfi til að fella slíkt dýr. Það er líka mál til komið að Umhverfisráðuneytið geri skattgreiðendum grein fyrir útlögðum kostnaði vegna ísbjarnabullsins undanfarin ár. Hvers vegna á Náttúrufræðistofnun að kryfja hvert ísbjararhræ sem hér rekur á fjörur? Hvað á að rannsaka? Hvort dýrin hafi fjórar lappir og dindil?